Flateyri: Geislun vatns frestað til morguns
Vegna úrkomu er vatnið í vatnsbóli Flateyrar enn örlítið gruggugt og því ekki talið ákjósanlegt að setja geislun á vatninu af stað í dag. Veðurspá er þannig að þetta ætti að lagast hratt og er því gert ráð fyrir að kveikt verði á geislabúnaði í fyrramálið, föstudaginn 15. nóvember. Íbúar eru því hvattir til að sjóða neysluvatn áfram. Sérstök tilkynning verður send út um leið og óhætt er að hætta því.
SMS hefur verið sent til íbúa í gegnum kerfi 1819.is. Skilaboðin sendast eingöngu til þeirra sem eru með skráð símanúmer og heimilisfang hjá 1819 og því þurfa þau sem óska eftir að fá send upplýsingaskeyti að sjá til þess að skráning sé til staðar. Til að skrá númer þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á 1819 og velja Mín skráning undir Minn aðgangur. Þar er hægt að setja inn eða uppfæra símanúmer og heimilisfang.
Að sjóða neysluvatn
Vatnið þarf að bullsjóða. Hraðsuðuketill bullsýður vanalega vatnið þegar hann slekkur á sér og það er nægilegt. Ef notaður er örbylgjuofn verður að ganga úr skugga um að vatnið bullsjóði.
Soðið vatn
Allt vatn sem drukkið er þarf að vera soðið. Einnig er nauðsynlegt að sjóða vatn sem nota á;
- við matargerð, s.s. til skolunar á matvælum, sem ekki á að hitameðhöndla þ.e. sjóða eða steikja
- til íblöndunar safa, annarra drykkja eða matvæla, sem neytt er án eldunar
- til kaffilögunar, ef kaffivélin sýður ekki vatnið við uppáhellinguna þarf að setja soðið vatn í hana
- til ísmolagerðar
- til tannburstunar
- til böðunar ungbarna
- til loftræstingar s.s. í rakatæki
Þessi listi er ekki tæmandi og verður hver og einn að meta það hvort hætta sé á ferðum sé vatnið notað ósoðið.
Ósoðið vatn
Nota má ósoðið vatn;
- til matargerðar s.s. til skolunar á matvælum, sem munu síðar vera elduð
- til uppþvotta í vél eða höndum og er þá leirtau þurrkað eða látið þorna fyrir notkun
- til handþvotta
- til baða, í baðkari eða sturtu en rétt að brýna fyrir börnum að drekka ekki vatnið
- til tauþvotta
- til þrifa