Flateyri: Framkvæmdir við endurbættar snjóflóðavarnir hefjast í sumar
Mynd: Verkís.
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við endurbættar snjóflóðavarnir á Flateyri í sumar. Samkvæmt tillögu Verkís er meðal annars gert ráð fyrir að reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða og að þvergarður milli leiðigarðanna verði hækkaður.
Kristín Martha Hákonardóttir, snjóflóðaverkfræðingur hjá Verkís, hefur leitt hönnun endurbættra snjóflóðavarna á Flateyri, í samstarfi við fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga.
Tillögur Verkís um endurbætur á snjóflóðavörnum eru eftirfarandi:
- Reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði.
- Þvergarður milli leiðigarða verði hækkaður og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu, til þess að draga úr hættu á yfirflæði.
- Móta flóðrásir við báða leiðigarða, til þess að auka virka hæð leiðigarða og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram görðunum og út í sjó.
- Byggja lágan en brattan leiðigarð ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn.
- Setja upp um 2 km af snjósöfnunargrindum á Eyrarfjalli, til þess að draga úr tíðni flóða í byrjun vetrar úr upptakasvæðunum og þannig draga enn frekar úr hættu í byggð vegna iðufalds. Snjósöfnunargrindur munu einnig draga úr tíðni flóða úr upptakasvæði, svæði stórra og lítilla.
- Styrkja glugga- og dyraop sem snúa upp í hlíð, í öllum húsum á áhættusvæði B, með áherslu á hús efst á hættusvæðinu.
Þegar hefur verið ráðist í nokkur verk tengd framkvæmdinni:
- Haustið 2021 var flóðrás meðfram leiðigarði undan Innra-Bæjargili dýpkuð.
- Sumarið 2021 voru styrkingar fyrir glugga- og dyraop í tveimur húsum við Ólafstún hannaðar og samtal átt við íbúa um útfærslur.
- Sumarið 2022 voru settar upp snjósöfnunargrindur og veðurstöð á Eyrarfjalli, ofan Flateyrar í tilraunaskyni. Veðurstofan mun mæla skaflana en grindurnar virðast safna verulegu snjómagni. Fylgst verður með virkni þeirra í þrjá vetur.
- Veðurstofa Íslands hefur sett upp Veðurstöð á Eyrarfjalli, nýjan radar á leiðigarðinn undan Skollahvilft sem mælir hraða flóða sem falla úr gilinu, annan radar við höfn sem nemur flóð sem falla úr nokkrum giljum við Flateyri og snjódýptarmæla í Innra-Bæjargil og Miðhryggsgil.
Veðurstofan hefur yfirfarið drög Verkís að endurbótum á vörnunum og í umsögn kemur fram að hönnunarforsendur varnarvirkjanna og mat á áhrifum þeirra til lækkunar á áhættu í byggð er í samræmi við álit Veðurstofunnar. Í umsögninni segir meðal annars að fyrirkomulag varnargarða og keilna er valið á grundvelli umfangsmikilla snjóflóðalíkanreikninga og mati sérfræðinga á aðstæðum og er í samræmi við það sem Veðurstofan telur eðlilegt. Þá kemur fram að brugðist er við aukinni hættu á hafnarsvæðinu vegna öflugra streymis meðfram leiðigarðinum með leiðigarði ofan hafnarsvæðisins, auk þess sem keilur undir Skollahvilft dragi úr krafti snjóflóðs í átt að hafnarsvæðinu.
Staða verksins þegar þetta er ritað er sú að verið er að ljúka við ritun frumathugunarskýrslu en teikningasett og líkön af vörnum liggja fyrir. Verk- og landslagshönnun er hafin. Þá er verið að ljúka gerð útboðsgagna vegna netgrinda.
Í frétt Verkís um málið eru birt eftirfarandi myndskeið sem sýna niðurstöður úr hermilíkani, þar sem hönnunarflóð með um 1000 ára endurkomutíma, þ.e. reiknað er með að komi á 1000 ára fresti, fellur úr upptakasvæðunum. Stærstu þekktu flóð sem fallið hafa úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft eru með um 100-150 ára endurkomutíma og féllu 1953 og 1995. Á fyrri myndbandinu er hermt flóð úr Skollahvilft og í því síðara úr Innri-Bæjargili.
Hönnunarflóð úr Skollahvilft
Stærsta þekkta flóð sem fallið hefur úr Skollahvilft féll 1995, útlínu þess má sjá á myndinni til vinstri. Næst stærsta flóð úr Skollahvilft féll í janúar 2020, eftir tilkomu varnargarðanna og er útlína þess sýnd á miðju mynd og myndinni til hægri.
Hönnunarflóð úr Innri-Bæjargili
Stærsta flóð sem þekkt er að fallið hafi úr Innra-Bæjargili féll 1953, útlínu þess má sjá á myndinni til vinstri ásamt útlínum annarra stórra flóða frá 1974 og 1972. Næststærsta þekkta flóð úr Innra-Bæjargili féll í janúar 2020, eftir uppbyggingu garðanna og er útlína þess sýnd á miðju mynd og myndinni til hægri.