Fjölmenningarþing á Ísafirði

Vegna vinnu við stefnu í móttöku nýrra íbúa hefur fjölskyldusvið Ísafjarðarbæjar ákveðið að blása til fjölmenningarþings. Þingið verður haldið laugardaginn 12. nóvember næstkomandi á fjórðu hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Þingið hefst kl. 10 og gera áætlanir ráð fyrir að það standi til kl. 14. Boðið verður upp á léttan hádegisverð.

 

Á fjölmenningarþinginu verður þjóðfundarformið nýtt og hefur Sigríður Kristjánsdóttir tekið að sér þingstjórn. Unnið verður í hópum með borðstjóra á fimm tungumálum; íslensku, ensku, pólsku, tælensku og þýsku.

 

Markmiðið með þinginu er að skapa umræður um málefni innflytjenda og eru umræðuefnin m.a. gagnkvæm aðlögun, móttaka nýrra íbúa í Ísafjarðarbæ, fræðslumál og fleira. Jafnframt er markmiðið að læra af reynslu þeirra sem hingað hafa flutt.

 

Niðurstöðurnar verða nýttar í gerð móttökuáætlunarinnar.

 

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Rúnar Helgi Haraldsson forstöðumaður fjölmenningarseturs og Sóley Jónsdóttir sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu munu flytja ávörp í upphafi þingsins.

 

Þingið er öllum opið. Óskað er eftir því að þátttakendur skrái sig í gegnum netfangið saedis@isafjordur.is.