Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019 - Fyrri umræða - fylgigögn
Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019 hefur verið lögð fram. Hún var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 15.nóvember.
Rekstrarafgangur samstæðu Ísafjarðarbæjar verður 86 milljónir árið 2019 samkvæmt áætluninni. Skuldaviðmið lækkar og verður 114% í árslok.
„Við erum þess fullviss að hér sé verið að leggja fram ábyrga en jafnframt metnaðarfulla fjárhagsáætlun. Við reynum eftir fremsta megni að taka mið af tvísýnum efnahagshorfum en á sama tíma er verið að ráðast í stórar framkvæmdir, sinna mikilvægu viðhaldi og bregðast við áskorunum sem fylgja fjölgun íbúa og brýnni þörf á úrræðum fyrir barnafjölskyldur“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Fjárhagsáætlunin endurspeglar þannig áherslu á menntamál, velferðarmál og íþrótta- og æskulýðsmál í Ísafjarðarbæ.
Gert er ráð fyrir verulegri aukningu í málefni fatlaðra vegna breytinga á skilgreiningu á grunnþjónustu á grundvelli nýrra laga.
Alls verður fjárfest fyrir 898 milljónir í Ísafjarðarbæ 2019. Áætlaður beinn kostnaður sveitarfélagsins er 574 milljónir. Meðal stærri verkefna sem ráðist verður í er viðbygging við leikskólann Eyrarskjól á Ísafirði en einnig er áætlað að hefja framkvæmdir við yfirbyggðan gervigrasvöll á Torfnesi. Áfram verður haldið með byggingu á fjölbýlishúsi við Sindragötu.
Ráðist verður í endurbætur og viðhald fyrir 308 milljónir á árinu en stærstu viðhaldsverkefni sveitarfélagsins verða á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.
Íbúar ísafjarðarbæjar verða samkvæmt áætlun 3.864 talsins í árslok 2019 en gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmt 1% frá áætluðum fjölda íbúa í lok árs 2018.
Eftirfarandi fylgigögn liggja fyrir vegna fyrri umræðu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019:
Fjárfestingar 2019 - 2022
Fjárhagsáætlun 2019 - Rekstrar- og efnahagsreikningur ásamt sjóðsstreymi