Fjárhagsáætlun 2025: Samantekt eftir fyrri umræðu í bæjarstjórn
Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2025 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 31. október.
Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, dregur áætlunin upp jákvæða mynd af rekstri sveitarfélagsins og endurspeglar vaxandi uppbyggingu og öflugra samfélag. „Bæjarbúum hefur fjölgað, og atvinnulíf blómstrar, sem hefur jákvæð áhrif á bæjarsjóðinn,“ segir Arna.
„Það hafa verið mikil straumhvörf í rekstri bæjarins sem má fyrst og fremst þakka góðri samvinnu bæjarfulltrúa sem hafa verið einhuga um stefnu sveitarfélagins í fjármálum. Stefnu sem byggir á þeim fjárhagslegu markmiðum sem sett voru árið 2022.“
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir 820 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta rekstrar sveitarfélagsins árið 2025. Rekstur A-hluta sýnir jákvæða niðurstöðu upp á 288 milljónir króna. Niðurstöðurnar gætu þó tekið breytingum á milli umræðna, ekki síst í ljósi ákvörðunar um að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,54% í 0,50% á næsta ári.
Samkvæmt áætlun aukast tekjur sveitarfélagsins um 5% á meðan útgjöld hækka um 4,6%. Skuldir sveitarfélagsins lækka, þar sem verulegur hluti þeirra var greiddur niður á árinu og engin ný lán tekin. Ekki er gert ráð fyrir neinni lánatöku árið 2025.
Helstu verkefni og framkvæmdir
Árið 2025 er gert ráð fyrir framkvæmdum í A- og B-hluta sveitarfélagsins fyrir um 980 milljónir króna. Meðal helstu verkefna er undirbúningur að byggingu nýrrar slökkvistöðvar, sem áætlað er að ljúka árið 2026, ásamt ofanflóðaframkvæmdum á Flateyri. Einnig er stefnt að frekari uppbyggingu á hafnarsvæðum, með áætluðum fjárfestingum sem nema rúmlega hálfum milljarði króna. Þar er meðal annars áformað að bæta við göngustígum og lýsingu við Norðurtanga, nýtt gámaplan, farþegamiðstöð og sölubása fyrir ferðamenn.
Áfram verður unnið að fráveituverkefnum, en nú þegar hafa hreinsistöðvar verið keyptar fyrir Flateyri, Suðureyri og Þingeyri, sem verða komnar í notkun næsta sumar. Einnig er í undirbúningi stórt fráveituverkefni í Skutulsfirði.
273 milljónir króna eru áætlaðar í viðhald bygginga sveitarfélagsins í öllum kjörnum. Að sögn Örnu er þó enn óljóst hvort nægilegur mannskapur fáist til að sinna öllum verkefnum.
Uppbyggingarsamningar við íþróttafélög hækka, og nýtt verkefni verður sett á laggirnar sem snýr að eflingu félagsstarfs ungmenna.
Fyrirhugað er að bæta þjónustu í minni kjörnum sveitarfélagsins með svo kölluðum „staðaraugum“, samningum þjónustumiðstöðvar við verktaka á hverjum stað um að taka að sér ýmis verkefni fyrir stofnanir sveitarfélagsins.
Seinni umræða um fjárhagsáætlun fer fram í byrjun desember.