Fjárhagsáætlun 2022 – samantekt

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2022 var samþykkt á 485. fundi bæjarstjórnar sem fór fram þann 2. desember 2021.

Niðurstaða A og B hluta er áætluð með 37 m.kr. afgangi og gert er ráð fyrir að skuldahlutfall verði 143,5 prósent í árslok.

Lagt er til að útsvarsgreiðslur fyrir árið 2022 verði áætlaðar 2.541 m.kr. samanborið við 2.390 m.kr. í áætlun 2021. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa í þessari áætlun en gert er ráð fyrir að staðgreiðsluskyldar tekjur hækki um 6,1%. Í áætlun 2022 er staðgreitt útsvar áætlað 2.441 m.kr. og eftirágreitt útsvar áætlað 99,6 m.kr.

Samkvæmt fjárhagsáætlun er lagt til að fasteignaskattur verði óbreyttur frá árinu 2021, en hann var lækkaður árið 2021, og verður 0,56% á íbúðarhúsnæði og 1,65% á aðrar fasteignir. 

Með lækkun lóðarleigu á íbúðarhúsnæði úr 1,8% í 1,5%, lækkun holræsagjalds á íbúðarhúsnæði úr 0,2%, í 0,15%, lækkun vatnsgjalds á íbúðarhúsnæði úr 0,1% í 0,02% og hækkun rotþróargjalds úr
12.378 í kr. 12.700, auk hækkana á sorpgjaldskrá um 9,85% verður heildarhækkun tekna vegna fasteignagjalda árið 2022, að teknu tilliti til lækkunar framlags Jöfnunarsjóðs, um 7,7% miðað við tekjur
ársins 2021, en lækkun framlags Jöfnunarsjóðs, vegna lækkunar fasteignaskattsins árið 2021 er kr. 15.011.073. Fasteignagjöld hækka samanlagt um 7,3% á milli ára og eru áætluð 759 m.kr. Skýrist það ekki síst af umtalsverðri hækkun fasteignamats í Ísafjarðarbæ en fasteignamat Þjóðskrár Íslands fyrir 2022 var 55.902.706, og fyrir árið 2021 var það 46.904.721 m.kr. eða hækkun um 19,2%.

Í máli bæjarstjóra á fundinum kom fram að helstu áskoranir við að koma saman hallalausri áætlun hafi fyrst og fremst verið vegna hækkunar á launaliðum.

Launahækkanir ásamt kostnaði samfara vinnutímastyttingu eru umtalsverðar og ekki sjálfbærar. Hlutfall launa í A-hluta er áætlað 61,7 prósent af heildarútgjöldum og hefur farið hækkandi á undanförnum árum.
Áskorun okkar í nánustu framtíð að gera A-hlutann sjálfbæran. Það er ekki ásættanlegt að A-hlutinn sé rekinn með viðvarandi halla til langframa og það ætti því að vera okkar markmið næstu misserin að fara í uppstokkun á núverandi fyrirkomulagi á starfsemi sveitarfélagsins. Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2022 er þó ásættanleg miðað við núverandi skipulag.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2022 – Rekstrar- og efnahagsreikningur ásamt greinargerð

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2022 – Sundurliðunarbók