Fjárhagsáætlun 2022: Hátíðahöld í Ísafjarðarbæ
Vegna samkomutakmarkana hafa skemmtanahöld verið fábrotin undanfarin misseri en vonir standa þó til að hægt verði að blása til hefðbundinna hátíðahalda í Ísafjarðarbæ þegar líða tekur á árið.
Við gerð fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2022 var ákveðið að hækka nokkuð það fjármagn sem áætlað er í þrjár stærstu hátíðir sveitarfélagsins, Skíðavikuna, 17. júní og Veturnætur, auk viðburða við tendrun jólaljósa. Þá er hluti fjármagnsins einnig nýttur í styrki til ýmissa viðburða á vegum annarra en sveitarfélagsins, ýmist í formi fjárstyrks eða vinnuframlags.
Samhliða þeirri ákvörðun að setja meiri kraft í Skíðavikuna, þjóðhátíðardaginn og Veturnætur var ákveðið að hætta að bjóða til þrettándagleði á Ísafirði annað hvert ár, en gleðin hefur verið haldin til skiptis á Ísafirði og í Bolungarvík.