Fjárhagsáætlun 2021: Samantekt bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2021 var samþykkt á 467. fundi bæjarstjórnar sem fór fram þann 17. desember 2020.

Samkvæmt áætluninni nemur áætlaður rekstrarafgangur A og B hluta 118 milljónum króna árið 2021. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 2,9 prósent af heildartekjum og að skuldahlutfall verði 145,5 prósent í árslok.

Lagt er til að útsvarsgreiðslur fyrir árið 2021 verði áætlaðar 2.300 m.kr. samanborið við 2.264 m.kr. í viðaukaáætlun 2020, sjá nánar töflu 1. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa í áætluninni en gert er ráð fyrir að staðgreiðsluskyldar tekjur hækki um 2%. Í áætlun 2021 er staðgreitt útsvar áætlað 2.250 m.kr. og eftirágreitt útsvar áætlað 50 m.kr.

Hér að neðan er ágrip bæjarstjóra um áætlunina.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2021 ber þess merki að við erum að glíma við áhrif og afleiðingar kórónuveirufaraldursins. Áhrifin hafa komið þungt niður á rekstri sveitarfélagsins á þessu ári og var fyrirséð að áhrifanna myndi einnig gæta við fjárhagsáætlun næsta árs. Í áætluninni er staðinn vörður um grunnþjónustu sveitarfélagsins en áætlunin endurspeglar einnig þann ásetning að halda áfram að byggja upp þróttmikið og fjölskylduvænt samfélag í Ísafjarðarbæ.

Útkomuspá fyrir yfirstandandi ár gerir ráð fyrir að umtalsverður halli verði á rekstri samstæðunnar þ.e. A og B hluta sveitarfélagsins. Af þeim sökum var fyrirséð að mikil áskorun yrði að koma saman áætlun fyrir næsta ár. Tekjutap sveitarfélagsins skýrist aðallega af tvennu; annars vegar tekjufalli hjá höfninni og hins vegar samdrætti í tekjum úr Jöfnunarsjóði. Kostnaðarhækkanir skýrast einkum af miklum launahækkunum samfara kjarasamningum. Áætlað er að laun hækki um hátt í 10% milli ára en öllum er ljóst að engin innistæða er fyrir svo miklum launahækkunum.

Verkefnið við að ná saman fjárhagsáætlun með viðunandi niðurstöðu var því ærið og ljóst að því yrði ekki náð nema með umtalsverðum hagræðingaraðgerðum. Sviðsstjórar, forstöðumenn og starfsmenn lögðust yfir það sameiginlega verkefni að hagræða í rekstri sveitarfélagsins. Hlutfall launa er rétt um 55% af útgjöldum og því óhjákvæmilegt að horft sé á þann útgjaldalið í hagræðingarvinnunni. Vinnan skilaði settu marki og tókst á ýmsum sviðum að draga úr mönnun og minnka afleysingar. Auk þess var gerð krafa um 2% hagræðingu á allar starfseiningar og er það hlutverk forstöðumanna að útfæra þann sparnað með varanlegum hætti. Þrátt fyrir að þessi vinna hafi skilað heilmiklum árangri verður áfram unnið að því að leita allra leiða í frekari hagræðingu í rekstrinum.

Mikilvægt er að rekstur A hluta sé í jafnvægi og skatttekjur standi undir þeim útgjöldum sem fellur undir A hluta. Fjárhagsáætlun 2021 gerir ráð fyrir að A hlutinn verði rekinn með rúmlega 290 milljóna króna halla sem er auðvitað ekki viðunandi staða. Sú niðurstaða er þó ákveðinn varnarsigur í erfiðri stöðu. Hins vegar er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu af heildarrekstri sveitarfélagsins, þ.e. A og B hluta sem nemur liðlega 118 milljónum króna sem verður að teljast jákvætt við þessar aðstæður.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar nemi liðlega 1 milljarði króna á næsta ári. Þar eru fyrirferðamestu fram­kvæmdirnar annars vegar miklar framkvæmdir við höfnina á Ísafirði og hins vegar bygging lýðheilsu­hallar á Torfnesi. Áformað er að selja eignir Fasteigna Ísafjarðarbæjar og gert ráð fyrir að það verði tveggja ára verkefni en sala á eignum Fastís á að standa undir kostnaði við byggingu lýðheilsuhallar. Sjálfsagt eru skiptar skoðanir á því að ráðist skuli í byggingu hússins við þessar aðstæður. Sú aðferð sem hér er lagt upp með er þó skynsamleg, þ.e. að sala á íbúðum í eigu bæjarins sé nýtt til að fjármagna verkefnið. Við viljum geta borið okkur saman við önnur sveitarfélög og verið á pari varðandi framboð af þjónustu og afþreyingu til allra aldurshópa. Bygging lýðheilsuhallar er metnaðarfullt verkefni sem bætir samfélagið okkar og er einn þáttur í því að gera bæinn eftirsóknarverðan til búsetu fyrir alla aldurshópa.

Aðrar framkvæmdir eru smærri í sniðum en skipta samt máli í öllum byggðakjörnunum. Þar má nefna endurnýjun gangstétta, gatnagerð, tjaldsvæði, göngustíga og ýmis önnur mikilvæg verkefni.

Í áætluninni er lögð áhersla á að staðinn sé vörður um grunnþjónustu sveitarfélagsins en mikilvægt er að haldið sé úti öflugu mennta-, velferðar- og frístundastarfi. Okkar hlutverk er að gera gott samfélag enn betra, sá ásetningur endurspeglast í þessari áætlun.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri

 

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2021 og greinargerð