Félagsmiðstöð eldri borgara fær nafnið Vör
17.11.2023
Fréttir
Félagsmiðstöð eldri borgara í Ísafjarðarbæ hefur fengið nafnið Vör en nafnið var tilkynnt á opnu húsi í félagsmiðstöðinni í gær, 16. nóvember.
Á kynningarfundi öldrunarfulltrúa sem haldinn var í september var boðið upp á að skila inn hugmyndum að nafni á félagsmiðstöðina og komu margar tillögur í pottinn. Dómnefnd fór svo yfir hugmyndirnar og varð Vör fyrir valinu. Nafnið þykir ríma sérstaklega vel við Naust, sem er húsnæði Félags eldri borgara á Hlíf.
Í frétt frá félagsmiðstöðinni kemur fram að mörg sem skiluðu inn tillögum hafi greinilega hugsað á svipuðum nótum, því alls bárust átta tillögur með nafninu Vör. Því var sigurvegari nafnasamkeppninnar dreginn úr potti og kom vinningurinn í hlut Steinunnar Ingimundardóttur á Hlíf.