Endurbókun - Opnun listasýningar
Sýningin ENDURBÓKUN opnar sunnudaginn 28. ágúst kl.14 í sal Listasafns Ísafjarðar. Það er listahópurinn Arkir sem stendur fyrir sýningunni í samstarfið við Listasafnið en í hópnum eru 11 konur og á sýningunni getur að líta brot af verkum þeirra. Allir eru velkomnir á opnunina.
Listahópurinn ARKIR hefur verið starfandi vel á annan áratug. Listamennirnir í hópnum eiga það sameiginlegt að ástunda bókverkagerð af ýmsum toga. Oft er verkin einstæð, stundum fjölfölduð, en efniviður og efnistök jafnan fjölbreytt. Hópurinn telur nú ellefu meðlimi og hefur sýnt bæði hérlendis og erlendis, tekið þátt í samsýningum heima og heiman.
Á sýningunni ENDURBÓKUN má sjá brot af verkum úr smiðju ARKA, hópi ellefu listakvenna sem stunda bókverkagerð. Öll verk á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera unnin úr gömlum bókum. Flestar þeirra voru fengnar hjá Borgarbókasafninu í Gerðubergi, en bókasöfn afskrifa árlega nokkurn fjölda bóka til frekari útlána. Þessar gömlu bækur, sem lokið hafa hlutverki sínu, hafa öðlast nýtt líf í einstæðum listaverkum.
ARKIR hittast reglulega til að bera saman bækur sínar en meðlimir hópsins hafa um margra ára skeið stundað bókverkagerð af ýmsum toga. Listakonurnar sinna öllu jafna fjölbreyttri listsköpun á sviði málara- og grafíklistar, textíllistar, ritlistar, myndlýsinga og hönnunar en eiga það sameiginlegt að hrífast af bókverkum.
Bókverk er samheiti yfir listaverk sem tengjast á einhvern hátt bókinni sem formi og hugtaki. Fjölbreytni bókverka er óendanleg enda hugmyndaflug listamannsins eina takmörkunin. Bókverk geta verið fjölfölduð eða einstæð, aðeins til í einu eintaki, með augljósu yfirbragði handverksins eins og mörg verkanna á sýningunni Endurbókun. Aðferðirnar sem notaðar eru við sköpunina eru margvíslegar; pappírsbrot, klippitækni og skurður, textílaðferðir, málun og teikning og þrykkaðferðir svo nokkuð sé nefnt.
Eftirtaldar listakonur eiga verk á sýningunni:
Anna Snædís Sigmarsdóttir
Arnþrúður Ösp Karlsdóttir
Áslaug Jónsdóttir
Bryndís Bragadóttir
Helga Pálína Brynjólfsdóttir
Ingiríður Óðinsdóttir
Kristín Guðbrandsdóttir
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir
Sigurborg Stefánsdóttir
Svanborg Matthíasdóttir
Nánari upplýsingar: http://www.arkir.wordpress.com