Dagur tónlistarskólanna - Hátíð í Ísafjarðarkirkju
Í febrúar ár hvert er Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur víða um land. Tónlistarskóli Ísafjarðar fagnarþessum degi næstkomandi laugardag 10. febrúar með stórtónleikum í Ísafjarðarkirkju og hefjast þeir kl. 14:00. Þessir tónleikar eru árviss viðburður hjá skólanum og er jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu hjá nemendum, kennurum og forráðamönnum.
Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg og koma þar fram stærri samspils og sönghópar skólans. Að þessu sinni gegna lúðrasveitir og kórar skólans stóru hlutverki á tónleikunum. Unglingasöngdeildin syngur 2 lög ásamt þeim Kötlu Vigdísi og Ásrósu í Between Mountains, annað lagið er sérstaklega samið af þessu tilefni og því frumflutningur. Nemendur frá útibúi skólans á Þingeyri koma fram í rytmísku samspili. Hápunktur tónleikanna er Ísófónían sem leikur og syngur 2 lög undir stjórn Madis Mäekalle. Í Ísófóníunni leiða saman hesta sína stór hluti nemenda frá öllum starfsstöðvum Tónlistarskóla Ísafjarðar (Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri) svo úr verður mikil hljómkviða flutt af gleði og ánægju.
Aðgangseyrir að tónleikunum er 500 krónur og rennur hann óskiptur til hljóðfærakaupa. Frítt er fyrir börn undir 18 ára og ellilífeyrisþega.
Við vonumst til og hlökkum til að sjá ykkur sem flest á laugardaginn.