Dagur Benediktsson er íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022, Dagur Benediktsson, ásamt Stellu móður sinni sem var íþróttamaður…
Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022, Dagur Benediktsson, ásamt Stellu móður sinni sem var íþróttamaður Ísafjarðar 1982.

Skíðagöngumaðurinn Dagur Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 í gær, sunnudaginn 8. janúar. 

Dagur var tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga og í rökstuðningi segir:

Dagur hefur æft skíðagöngu með SFÍ frá unga aldri og keppir nú um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga. Hann hefur lagt mikið á sig til að komast á þennan stað sem hann er í dag enda krefst það gífurlegs sjálfsaga að komast langt í einstaklingsíþrótt. Til að mynda ver Dagur yfir 700 klst. í æfingar á ári sem er að meðaltali um 2 klst á dag, alla daga ársins. Hann er mikil fyrirmynd fyrir krakkana í SFÍ og passar að kíkja á æfingar þeirra þegar hann er staddur á svæðinu. Dagur er í A-landsliðinu í skíðagöngu og keppir á mörgum helstu stórmótum heims, enda er hann einn af topp þremur Íslendingum á heimslista í skíðagöngu karla. Hann vann til fjölda verðlauna á síðasta ári og má þá helst nefna að hann var annar í mark af öllum í 50 km Fossavatnsgöngu.

Til gamans má geta þess að fyrir 40 árum, í febrúar 1983, hlaut móðir Dags, Stella Hjaltadóttir, útnefninguna íþróttamaður Ísafjarðar.

 Frétt úr Ísfirðingi, 11. mars 1983.

Við sama tilefni var efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 einnig útnefndur og féll titillinn í skaut Grétars Smára Samúelssonar, en Grétar stundar skíðagöngu af miklu kappi. Í rökstuðningi SFÍ segir að hann hafi náð frábærum árangri á síðasta ári og unnið allar þær greinar sem hægt er að vinna á skíðagöngumótum fyrir hans aldur auk þess að vera í öðru sæti af 125 keppendum í 25 km hefðbundinni göngu í Fossavatnsgöngunni. 

Grétar Smári og Dagur.

Þá voru veittar viðurkenningar þeim sem hlutu tilnefningu frá sínu íþróttafélagi í báðum flokkum.

Tilnefningar í kjörinu um íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Jón Gunnar K. Shiransson – Golfklúbbur Ísafjarðar
James M. Parilla f.h. Hilmis Hallgrímssonar – Körfuknattleiksdeild Vestra
Grétar Logi Sigurðsson f.h. Hafsteins Más Sigurðssonar – Blakdeild Vestra
Dagur Benediktsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Jón Hálfdán Pétursson f.h. Nicolaj Madsen – Knattspyrnudeild Vestra
Stefán Freyr Jónsson f.h. Rolands Lebedevs – Handknattleiksdeild Harðar

Tilnefningar í kjörinu um efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Sverrir Bjarki Svavarsson – Blakdeild Vestra
Pétur Þór Jónsson – Handknattleiksdeild Harðar
Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Hjálmar Helgi Jakobsson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Haukur Fjölnisson – Körfuknattleiksdeild Vestra
Grétar Smári Samúelsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Ekki á mynd: Marvin Darri Steinarsson – Knattspyrnudeild Vestra