Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 9

Dagbók bæjarstjóra 3.– 9. mars 2025, í níundu viku í starfi.

Þegar við hjónin, og fleiri Vestfirðingar, ætluðum að keyra frá Reykjavík fyrir viku var allt kolófært. Við ílengdumst því í Reykjavík til mánudags, ég tók bæjarráðsfundinn á Teams en svo lögðum við af stað strax að honum loknum. Þá hitti vel á að þegar við vorum komin vel áleiðis var Dynjandisheiðin opnuð og við fórum þá leið, hún er styttri fyrir okkur.

Á leiðinni vestur á mánudaginn fékk ég símtal frá einum af forsvarsmönnum Icelandair sem tjáði mér að vegna breyttra aðstæðna hjá félaginu væri búið að taka ákvörðun um að Icelandair myndi hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar í lok sumars 2026. Í kjölfarið óskaði ég eftir fundi með Icelandair sem var einnig í vikunni. Ég ætla svo sem ekki að fara mikið út í atburðarásina og málavexti hér enda voru fjölmiðlar mjög duglegir að fjalla um þetta en haft var samband við mig frá fjölmörgum fjölmiðlum, þá voru viðtöl við mig á Rás 1 og 2, Bylgjunni og RÚV.

Við tókum svo málið á dagskrá í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og bókuðum. Það er klárt að það kemur ekki til greina að ekkert áætlunarflug verði til Ísafjarðar, það er verkefni okkar kjörinna fulltrúa, þingmanna og allra hagaðila að vinna að því að viðunandi lausn finnist. Vikan litaðist mjög mikið af þessu en dagar sem ég ætlaði að nýta í önnur verkefni fóru þá bara á ís.

Bryndís færði Guðrúnu Blábankastjóra tölvu.
Bryndís færði Guðrúnu Blábankastjóra tölvu.

Á efri hæðinni í Blábankanum er Arctic fish með aðstöðu, þar sem fóðrunin í eldiskvíunum er vöktuð.
Á efri hæðinni í Blábankanum er Arctic fish með aðstöðu, þar sem fóðrunin í eldiskvíunum er vöktuð.

Við Bryndís eftir góðan dag í Blábankanum.
Við Bryndís eftir góðan dag í Blábankanum.

Við Bryndís bæjarritari fórum í Blábankann eftir hádegi á þriðjudag. Þetta var auglýst á Facebook-síðu Blábankans og heimasíðu Ísafjarðarbæjar. Ég hef ekki tölu á hve mörg mættu í heildina en samtals voru níu einkafundir með einstaklingum og svo var almennt spjall við gesti og gangandi í kaffirýminu. Fólki lá margt á hjarta en eftir daginn stendur uppúr að það er hugur í Þingeyringum. Ég fékk það til dæmis staðfest að Dýrafjarðardagar verða 11. – 13. júlí. Ég stefni á að taka svona dagpart aftur fyrir sumarfrí. Þá ætla ég mér einnig að taka svona dagparta á Suðureyri og Flateyri.

Sigríður Júlía með stjórnarfólki Félags eldri borgara.
Sigríður Júlía með stjórnarfólki Félags eldri borgara.

Þá átti ég frábæran fund með stjórn Félags eldri borgara á Ísafirði. Þau færðu mér yfirlit yfir dagskrá vetrarstarfsins (veit ekki hvort þau hafi haldið að ég ætti stutt í að komast í félagið) en í boði er allskonar afþreying eins og handavinnurabb, bókarabb, bingo, félagsvist, bridge, kínaskák, æfingar í íþróttahúsi, sund og síðast en ekki síst söngstund. Það er ómetanlegt það sjálfboðastarf sem þarna fer fram og gott að vita að fólk er duglegt að nýta sér það sem félagið býður upp á.

Margrét Geirs að spjalla við Hörpu sem er yfir starfsendurhæfingu Vestfjarða.
Margrét Geirs að spjalla við Hörpu sem er yfir starfsendurhæfingu Vestfjarða.

Fatamóttakan í Vesturafli.
Fatamóttakan í Vesturafli.

Í Vesturafli, Harpa sagði frá starfseminni þar.
Í Vesturafli, Harpa sagði frá starfseminni þar.

Ég fór í heimsókn í Starfsendurhæfingu, fjölsmiðju Vesturafls. Það var virkilega góð og gagnleg heimsókn. Ég hef oft komið á fatamarkaðinn í Vesturafli en í sjálfu sér aldrei sett mig mikið inn í starfsemina sem ég fékk núna gott tækifæri til. Vesturafl er geðræktarmiðstöð fyrir fólk sem vegna veikinda og/eða annarra tímabundinna aðstæðna býr við skert lífsgæði og getur því ekki tekið virkan þátt í samfélaginu, vinnu eða inni á heimili. Hlutverk Vesturafls er að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu. Þarna kemur fólk, tekur þátt í smiðjum, spilar, sinnir flöskumóttöku, fatamarkaðnum eða bara er, spjallar og fær félagsskap. Starfsendurhæfingin er í sama húsi og Vesturafl, þar gefst Vestfirðingum tækifæri til að sækja starfsendurhæfingu í heimabyggð.

Framkvæmdaráð Velferðarþjónustu á Vestfjörðum fundaði í vikunni, þar var samþykkt að endurskoða samninginn sem gerður var 2023 en það lá alltaf fyrir að það þyrfti að gera til að sníða af vankanta, straumlínulaga hann til samræmis þeirri þjónustu og starfssemi sem hann snýst um. Góður tímapunktur núna þegar komin er reynsla á samninginn.

Axel, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, leit inná fund okkar Jóns Páls og Braga.
Axel, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, leit inná fund okkar Jóns Páls og Braga.

Þá átti ég góðan spjallfund með Jóni Páli bæjarstjóra í Bolungarvík og Braga sveitarstjóra í Súðavík um ýmis mál sem snúa að okkur öllum og meiri vigt í að við vinnum að saman, nefni flugmálið í því sambandi sem dæmi.

Jóna og Dommi. Jóna ber ábyrgð á því að það er eitthvað með kaffinu á höfninni.Jóna og Dommi. Jóna ber ábyrgð á því að það er eitthvað með kaffinu á höfninni.

Jónas, Hilmar og Heimir að gúffa í sig kræsingum frá Jónu.
Jónas, Hilmar og Heimir að gúffa í sig kræsingum frá Jónu.

Ég kíkti í morgunkaffi á skrifstofu hafnarstjóra í vikunni, það var ljómandi, gott að hitta fólkið þar og taka púlsinn. Það eru 196 skemmtiferðarskip að koma í sumar og það er verið að undirbúa komu þeirra. Sem dæmi þá er hafnarstjóri búinn að panta söluhús sem verða staðsett á komusvæði farþeganna. Það er tilhlökkunarefni að sjá hvernig aðstaðan á höfninni verður eftir að búið verður að gera göngustíga, móttökubyggingu en á sama tíma megum við ekki sofa á verðinum. Við verðum að vinna að því að framkvæmd á álagningu innviðagjalds verði breytt en það var sett á nýlega en skipafélögin eru óánægð með framkvæmdina sem var illa kynnt og stór biti sem félögin gátu ekki látið leka út í verðlag hjá sér því þau eru búin að selja ferðirnar með löngum fyrirvara. Þá er gjaldið mjög hátt og ekki miklar líkur á að skipafélögin treysti sér til að bjóða upp á ferðir til Íslands nema að verðið hækki svo um muni og þá er alltaf spurningin um eftirspurnina. Það er vont að þetta sé að gerast og á sama tíma erum við hjá höfnum Ísafjarðarbæjar að byggja upp öfluga innviði til að geta tekið á móti ferðafólki með myndarbrag.

Á kvenfélagsfundum hjá Ársól er alltaf sungið í upphafi og enda funda.
Á kvenfélagsfundum hjá Ársól er alltaf sungið í upphafi og enda funda.

Það var kvenfélagsfundur í Ársól á Suðureyri í vikunni, ósköp notaleg stemming þar.

Ég var frekar dugleg að hlaupa í vikunni með Dúa mínum, enda er veðrið eins og best verður á kosið þessa dagana. Við hlupum í Bolungarvík síðdegis á föstudag, fórum í frábæra pizzaveislu þar í bæ hjá góðum vinum.

Skógræktarleshópurinn í Blábankanum.
Skógræktarleshópurinn í Blábankanum.

Laugardeginum vörðum við hjónin að mestu á Þingeyri. Byrjuðum í Blábankanum þar sem við hittum leshópinn okkar. Þetta er skógræktarleshópur sem les bók sem heitir Skógarauðlindin, það eru lesnir nokkrir kaflar og svo er efnið rætt á fundi. Mjög gaman.

Á skrifstofunni í vélsmiðjunni á Þingeyri.Á skrifstofunni í vélsmiðjunni á Þingeyri.

Í vélsmiðjunni á Þingeyri.
Í vélsmiðjunni á Þingeyri.

Frá eldsmíðanámskeiðinu á Þingeyri.
Frá eldsmíðanámskeiðinu á Þingeyri.

Þá tókum við hlaupatúr í Dýrafirði, fórum í sund og kíktum svo við á eldsmíðanámskeiði í gömlu vélsmiðjunni. Það er svo gaman að koma í gömlu vélsmiðjuna sem er rekin sem safn en það er samt sem áður heilmikil starfsemi en hún er elsta starfandi vélsmiðja landsins. Gaman að segja frá því að nýlega var gerð stuttmynd um vélsmiðjuna sem heitir „Vélsmiðja 1913“, þessi mynd er tilnefnd til Edduverðlaunanna nú í ár í flokki heimildastuttmynda ársins. Það eru meðal annarra Elfar Logi og Marsibil í Kómedíuleikhúsinu sem komu að gerð þessarar myndar. Edduverðlaunin verða afhent þann 26. mars næstkomandi í beinni útsendingu á RÚV – allir klárir með poppið!