Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 7

Dagbók bæjarstjóra dagana 17. – 23. febrúar 2025, í sjöundu viku í starfi.
Þetta var ansi stór vika hjá bæjarstjóranum, allskonar fundir, litlir og stórir, fer yfir þá helstu.
Bæjarráðsfundur var á hefðbundum stað, vikan byrjar alltaf þar á mánudagsmorgnum. Þá var bæjarstjórnarfundur á þriðjudeginum en vegna vetrarfrís í skólum var hann þennan dag, í stað fimmtudags.
Í bæjarstjórn voru stór mál afgreidd og þar ber fyrst að nefna sérreglur Ísafjarðarbæjar um byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári (2024-2025). Tillagan sem var samþykkt var á sama veg og undanfarin ár, það er löndunarskylda innan sveitarfélags. Þá var samþykkt mannréttindastefna Ísafjarðarbæjar, reglur um frístundastyrki voru samþykktar, uppbyggingarsamningar um sex verkefni voru samþykktir.
Þá var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun vegna sölu Fasteigna Ísafjarðarbæjar á íbúðum á Þingeyri og Suðureyri til fasteignafélagsins Brákar. Ég undirritaði einmitt kaupsamningana í vikunni en Brák mun taka við íbúðunum 1. mars næstkomandi.
Mánaðarlega hittast bæjar-/sveitarstjórar á Vestfjörðum á fundi með starfsfólki Vestfjarðarstofu. Einn slíkur var í vikunni en þar var kynnt undirbúningsvinna við endurskoðun Áfangastaðaáætlunar Vestfjarða sem Steinunn Ása Sigurðardóttir heldur utan um og vinnu við Menningarstefnu Vestfjarða sem Skúli Gautason sér um. Þá tókum við spjallið og greindum frá því sem ber hæst í starfi bæjar-/sveitarstjóra þessi misserin. Mjög gagnlegt og gott að heyra í kollegum sínum.
Við tókum okkur saman nokkrir bæjarstjórar og birtum grein í vikunni um flugvallarmálin í Reykjavík. Þar mótmæltum við lokun annarrar af tveimur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar með tilheyrandi skerðingu á þjónustu og öryggi. Við fylgjum þessu máli eftir og eigum fund með hlutaðeigandi aðilum í komandi vinnuviku.
Í vikunni var haldinn kynningarfundur þar sem greint var frá breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs. Í framhaldinu var óskað eftir fundi Jöfnunarsjóðs og sveitarfélaga á Vestfjörðum til að ræða nánar þessar breytingar á regluverkinu sem nú liggja inni á samráðsgátt en sá fundur er áformaður í vikunni. Hlutverk Jöfnunarsjóðs er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Breytingin sem um ræðir á, í stuttu máli, að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. En hvernig skyldi þetta koma út fyrir Ísafjarðarbæ? Í stuttu máli, millistór fjölkjarna sveitarfélög munu fá aukið fé úr sjóðnum sem þýðir að það gagnast Ísafjarðarbæ þar sem starfssemi slíkra sveitarfélaga er oft flókin.
Á Þingeyri. Það er stundum ágætt að standa upp frá prjónunum og púsla smá sögðu þessar.
Á Þingeyri, hittum Öllu en hún sér um félagsstarf eldri borgara þar.
Rósa klikkar ekki á veitingunum á Sunnuhlíð.
Á röltinu með Margréti og Karólínu, ferðinni heitið upp á Hlíf.
Kaffi, kleinur og spjall uppi á Hlíf.
Ég held áfram að heimsækja stofnanir bæjarins. Fór á flakk á mánudag með Margréti Geirs, sviðsstjóra velferðarsviðs, Karólínu Júlíu starfsnema í félagsráðgjöf og Svanlaugu öldrunarfulltrúa. Við fórum í heimsókn á Tjörn á Þingeyri sem og í félagsstarf eldri borgara. Þá kíktum við í kaffi í Sunnuhlíð, félagsstarf eldri borgara á Suðureyri. Eftir hádegi á fimmtudag fórum við svo upp á Hlíf, en þar eru íbúðir eldri borgara, auk dagdeildar, félagsstarfs og fleira fyrir eldri borgara. Það er virkilega fín aðstaða þarna á Hlíf. Ég hitti fjöldan allan af fólki en það þurfti að draga mig út þar með töngum en fólk spjallaði mikið og svo voru kleinur í boði, ekki slæmt það.
Kjaradeilur kennara, sveitarfélaga og ríkis hafa ekki farið fram hjá neinum. Ég hef, á þessum fáu vikum í starfi, átt vikulega fundi með bæjar- og sveitarstjórum landsins þar sem við erum upplýst um gang mála, einn slíkur var á föstudagsmorgun. Hvað gerist við samningaborðið vita þau sem sitja við það en í tilfelli sveitarfélaganna er það samninganefnd sem hefur umboð til að semja fyrir ríki og sveitarfélög. Það er augljóst af fréttaflutningi að dæma að staðan er flókin og viðkvæm en ég treysti öllu því fólki sem þarna kemur að borði, hvar svosem fólk situr við það. Ég ætla sannarlega að vona að deilan leysist.
Borðhaldið að hefjast á Góufagnaði.
Nú á síðasta degi þorra, á laugardaginn, var haldinn Góufögnuður í Súgandafirði. Hefðin á Súganda er að karlar og konur skiptast á að halda þorrablót (konur) og góublót (karlar). Þannig að á næsta ári verður þorrablót sem konurnar sjá um. Þetta eru svo kölluð trogblót, þar sem fólk kemur með matinn með sér á blótið. Borðhaldið tók einn og hálfan tíma, þá var mikið sungið og flutt þrjú minni; kvenna, Súgandafjarðar og Íslands. Eftir borðhald fór fólk heim með trogin og gerði sig klár fyrir næsta vers sem voru skemmtiatriði en þá var búið að raða upp stólum, fækka borðum og í hönd fór skemmtidagskrá sem tók ríflegan klukkutíma, allt á sviði, leikþættir og söngatriði. Við Dúi og hlaupaáráttan okkar var tekin aðeins fyrir og þá var sunginn stórskemmtilegur bragur um mig (væri gaman að nálgast textann við tækifæri). Eftir skemmtiatriðin kom Önfirska hljómsveitin F1 Rauður og spilaði fyrir dansi fram á rauða nótt. Stórskemmtilegt kvöld, það verður erfitt fyrir okkur sem á eftir koma að toppa þetta, takk Góukarlar!
Ég átti afmæli í vikunni, það var gaman. Frábært að vera orðin fimmtíuogeins. Dúi minn græjaði fínasta kvöldkaffi fyrir mig og fjölskyldan (sá hluti sem býr á svæðinu) mætti.
Á síðasta degi þorra, Góufagnaður framundan.
Þetta veður sem er búið að vera undanfarna daga hefur ekki dregið úr löngun mannst til að vera úti og gerði ég eitthvað af því að hlaupa og ganga í vikunni og sundferðirnar voru nokkrar. Þá höfum við rætt um að fara að skrá okkur í einhverja keppni en allar hugmyndir að ½ maraþon hlaupum eru vel þegnar!