Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 6

Í Kampa. Árni, Gylfi, Salmar og Sigríður Júlía.
Í Kampa. Árni, Gylfi, Salmar og Sigríður Júlía.

Dagbók bæjarstjóra dagana 10. – 16. febrúar 2025, í sjöttu viku í starfi.

Í þessari viku náði ég að nýta tímann til að setja mig betur inn í fiskveiðistjórnunarkerfið eins og ég ræddi um í síðustu dagbókarfærslu. Sérreglur byggðakvóta lituðu nefnilega þessa viku mjög mikið en ég fékk mikið af símhringingum og heimsóknum.

Í hádeginu á föstudag var fundur í sal bæjarstjórnar þar sem hagsmunaaðilum var boðið að koma og ræða sín sjónarmið. Málið er að í reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025 stendur að:  „Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu 1. september 2024 til 31. ágúst 2025“. Það gengur ekki hér í Ísafjarðarbæ því það er ekki vinnsla í hverju byggðarlagi og þess vegna gefst okkur kostur á að setja sérreglur.

Fundargestir á fundi um byggðakvóta.
Fundargestir á fundi um byggðakvóta.

Umræðan snerist um kosti og galla þess að vera með löndunarskyldu innan byggðarlags eða innan sveitarfélags og þarna gafst kjörnum fulltrúum tækifæri að heyra sjónarmið hagsmunaaðila. Gott og gagnlegt og vil ég þakka öllum sem lögðu sitt til málanna.

Svæðisskipulagsnefnd fundaði í vikunni, sú vinna er á miklu skriði. Nú hafa allir kaflar vinnslutillögu verið lagðir fram til umfjöllunar í nefndinni. Vinnan næstu vikur er að púsla öllu saman. Við höfum rúman mánuð til að klára vinnslutillöguna en hún verður svo lögð fram til kynningar á fjórðungsþingi Vestfjarða að vori, 2. apríl næstkomandi. Eftir það gefum við okkur nokkrar vikur til að lagfæra út frá umræðum þar og í framhaldinu verður hún svo send út til kynningar í sveitarstjórnum Vestfjarða.

Vinnufundur bæjarfulltrúa um þjónustustefnu sveitarfélagsins var í vikunni en við Bryndís vinnum að henni og förum svo af stað með íbúafundi þegar líður að vori svo íbúar fái tækifæri til að fá innsýn í hana og koma með ábendingar og hafa áhrif. Ég sat stutt námskeið, „Boðið að borðinu“ um íbúasamráð í lok vinnuviku, það var mjög hollt og lærdómsríkt, ætla til að mynda að einsetja mér að nýta mér það í þeirri vinnu sem við erum byrjuð í varðandi þjónustustefnuna góðu.

Ný vinnslulína í Íslandssögu.
Ný vinnslulína í Íslandssögu.

Ég fór á engan vinnustað Ísafjarðarbæjar í vikunni en kíkti hins vegar í kaffi hjá fyrirtækjum á svæðinu. Í byrjun árs tók Íslandssaga á Suðureyri í gagnið nýja vinnslulínu sem keypt var frá Grindavík. Á 25 ára afmæli fyrirtækisins (í desember síðastliðnum) var opið hús þar sem fólki gafst tækifæri að kynna sér starfsemina en þar var kynnt sú fjárfesting sem fyrirtækið var að fara í. Ég fékk sem sagt að skoða nýju græjurnar í vikunni en þær gera það til dæmis að verkum að nýtingin er betri, sömuleiðis afköst. Sá fiskur sem unnin var þennan dag var keyrt suður síðdegis, beint í flug en pantanirnar áttu að fara til Kanada, Belgíu og Bretlands.

Rækjuskel mulin í Kampa.
Rækjuskel = verðmæti fyrir Genis

Þá fór ég ásamt Gylfa, formanni bæjarráðs, í heimsókn í Kampa á Ísafirði. Sömuleiðis var verið að fjárfesta þar í nýjum búnaði nýlega en þetta er mjög háþróað allt saman og virkilega fróðlegt að sjá hvernig rækjuverksmiðja virkar frá því að rækja kemur inn í frystum blokkum eða pokum, uppþýdd, soðin, pilluð, pækluð, fryst og pakkað. Rækjufarmarnir fara svo frystir með skipi frá Ísafjarðarhöfn, mikið til Bretlands. Fróðlegt þótti mér að heyra að öll skel sem fellur til fer sömuleiðis í gám og er flutt til Genis á Siglufirði. Þá er um 90% af þeirri rækju sem unnin er, keypt erlendis frá. Það má segja að „Sigga lærir um sjávarútveg og fiskvinnslu“ hafi verið í brennidepli í vikunni. Mjög skemmtilegt og fræðandi og þið sem vitið allt um fiskvinnslu, afsakið að ég er ekki alveg með „lingóið“ á hreinu, hef aldrei unnið í fiski.

Kvenfélagskonur í Ársól á Suðureyri.
Kvenfélagskonur í Ársól á Suðureyri.

Það var rólegt í félagslífinu, fyrir utan aðalfund Kvenfélagsins Ársólar á Suðureyri. Þar var, venju samkvæmt, sungið í upphafi og lok fundar, venjuleg aðalfundarstörf, kaffiveitingar og upplestur. Skemmtilegur og fjölbreyttur hópur kvenna þar.

Við Dúi á leið okkar út á Kálfeyri.
Við Dúi á leið okkar út á Kálfeyri.

Þá náði ég nokkrum hlaupum með Dúa mínum. Þvílíka blíðan sem er þessa dagana, við hlupum til dæmis frá Flateyri út á Kálfeyri síðdegis á miðvikudag, í bongóblíðu. Kálfeyri er við utanverðan Önundarfjörð norðanverðan en þar var allt að hundrað manns í verbúð þegar mest var. Síðast var róið frá Kálfeyri fyrir tæpum 100 árum eða árið 1928. Á Kálfeyri eru greinilegar rústir og virkilega gaman að koma og ímynda sér verbúðarlífið á öldum áður.

Við vorum bara heima á helginni, vorum með börn í pössun á meðan foreldrar fóru á þorrablót. Tókum aðeins til á pallinum og kvistuðum upp nokkur tré, til að tryggja að aðeins meiri sól nái á pallinn. Sund og aftur sund.

Ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Framundan er fjörug vika sem fyrr, njótið, það mun ég gera!