Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 5

Dagbók bæjarstjóra dagana 3. – 9. febrúar 2025, í fimmtu viku í starfi.
Umleypingasöm vika að baki. Ég ákvað að fara snemma heim úr vinnu á mánudag vegna veðurútlits, það var rétt ákvörðun því það var afskaplega lítið skyggni og þæfingur á veginum. Auk þess að heilsan var ekki upp á sitt besta fyrri hluta vikunnar, en það er eitthvað um kvefpestir þessa dagana og ég fékk minn skammt. Eins og venjulega voru dagarnir þéttir, fullt af fundum og viðtölum en ég ætla hér að stikla á því helsta.
Vikan bauð upp á bæjarráð eins og alla mánudaga auk bæjarstjórnarfundar á fimmtudag.
Í bæjarstjórn voru sérreglur byggðakvóta fyrir Ísafjarðarbæ fyrir yfirstandandi fiskveiðiár til umræðu en bæjarráð hafði lagt til við bæjarstjórn að samþykkja sérreglur. Miklar umræður sköpuðust á fundinum og að endingu lagði forseti fram tillögu um að fresta afgreiðslu á þessu máli. Sá hluti tillögu bæjarráðs sem umræður sköpuðust um voru að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi sveitarfélags. En sjónarmið voru uppi um að það ætti að festa við byggðarlög. Á þessu eru skiptar skoðanir en fyrir nokkrum árum gerði bærinn tilraun til að skylda fiskiskip til að landa afla sem telja má til byggðarkvóta í viðkomandi byggðarlagi. Það gekk ekki eftir og gera þurfti breytingu en í takti við þá breytingu lagði bæjarráð fram sína tillögu. Þetta er mjög nýtt fyrir mig, það sem snýr að þessari atvinnugrein, en ég geri mitt besta í að setja mig inn í það völundarhús sem lög og markmið þeirra um fiskveiðistjórnun á Íslandi eru.
Sigríður Júlía og Kristján Freyr, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, við undirritun Stuðsamningsins.
Ég var í miklu stuði í vikunni, sérstaklega á föstudaginn þegar Stuðsamningur Ísafjarðarbæjar við Aldrei fór ég suður var undirritaður á Suðurtanga. Styrktarsjóður Hafna Ísafjarðabæjar kemur myndarlega að hátíðinni í ár en eitt af markmiðum sjóðins er að efla bæjarbraginn og af því tilefni gefa samfélaginu ánægjulega upplifun sem er í boði fyrir alla á Aldrei. Markmið samningsins er að boðið sé upp á metnaðarfulla tónlistarhátíð þar sem gestir fá að njóta framúrskarandi íslenskrar tónlistar í einstöku umhverfi með sérstakri áherslu á að hátíðin kynni tónlistarfólk með tengsl við Ísafjarðarbæ.
Nemendur og starfsfólk Tanga við afhendingu Orðsporsins.
Dagur leikskólanna er 6. febrúar ár hvert, af því tilefni eru hvatningarverðlaunin Orðsporið veitt en það var einmitt síðastliðinn fimmtudag. Í ár voru um 70 tilnefningar en okkur til mikillar gleði var það Leikskólinn Tangi sem hlaut viðurkenninguna fyrir að vera leiðandi leikskóli í útinámi á Íslandi. Ég fór og var viðstödd afhendingu viðurkenningarinnar en í lok hennar sungu leikskólabörnin Sólarpönnukökulagið sem er lag eftir Gylfa, formann bæjarráðs og skástjúptengdasonar míns. Húrra fyrir Tanga!!
Sigga með Guðnýju Stefaníu aðstoðarskólastjóra og Höllu skólastjóra GÍ.
Heimsóknir í stofnanir bæjarins eru á dagskrá en núna er ég um það bil hálfnuð. Í vikunni fór ég í heimsókn í Grunnskólann á Ísafirði. Virðing, samhugur, menntun eru gildi skólans og þau skal hafa sem grunnstef í starfsemi skólans. Það var róleg og afslöppuð stemming í skólanum en Halla skólastjóri og Guðný Stefanía aðstoðarskólastjóri fóru með okkur Hafdísi og Guðrúnu (frá skóla- og tómstundasviði bæjarins) um álmurnar.
Smíðastofa Grunnskólans á Ísafirði.
Ég hef áður aðeins komið inn í anddyri og matsal skólans, þetta var því nýtt fyrir mér að fara svona um allar álmurnar. Það var gaman að sjá hve aðstaða fyrir starfsgreinar er fín og þá má ég til með að minnast á flotta bókasafnið sem er innan veggja skólans. Takk fyrir móttökurnar.
Fjöldasöngur á Degi tónlistarskólanna í Ísafjarðarkirkju.
Í gær, laugardag, var dagur tónlistarskólanna. Haldið var upp á daginn með myndarbrag í Ísafjarðarkirkju þar sem fram komu nemendur og kennarar Tónlistarskóla Ísafjarðar auk félaga í lúðrasveitinni. Frábærir tónleikar og gaman að heyra í öllu þessu hæfileikaríka fólki spila og syngja.
Á æfingu með hlaupahópnum í Önundarfirði.
Ég skráði mig í Lífshlaupið en það er eins og margir vita heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Það er í gangi vinnustaðakeppni dagana 5.-25. febrúar og að sjálfsögðu er „Team Bæjó“ með. Ég er fegin að dans telst með en ég endaði vikuna á miklu tjútti á Stútungi, þorrablótinu á Flateyri. Þar var boðið uppá fínan þorramat, skemmtiatriði og frábært ball. Það kom mér ekki á óvart að ég yrði tekin fyrir á blótinu en að það væri gert með þeim hætti sem raun varð átti ég nú ekki von. Ég verð að segja að Steinunn Ása stóð sig vel sem ég og Rakel María í hlutverki Örnu Láru var óborganleg. Vel gert stelpur! Það kom hins vegar mjög flatt uppá mig að vera valin í næstu Stútungsnefnd, veit ekki alveg hvað ég verð lengi að jafna mig á því.
Ég fór í létt og afslappað útvarpsviðtal í gær, Helgarútgáfuna á Rás 2 en útsending fór fram frá Logni, veitingastaðnum á Hótel Ísafirði. Það mætti alveg gera meira af því að senda út héðan og þaðan um landið, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Það skapar skemmtilega stemningu og færir fókusinn á staði hér og þar. Í þessum þætti var vestfirsk tónlist mjög áberandi, enda af nógu að taka.