Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 6
Dagbók bæjarstjóra dagana 5.-11. febrúar 2024.
Síðasta vika hefur einkennst af fjölbreyttum verkefnum eins og endranær.
Í bæjarráði var af þó nokkru að taka. Talsverður tími fór í að ræða þjónustustig á Torfnesvelli og hvernig því er best fyrirkomið. Einnig voru ræddar hugmyndir að verkefnum til að sækja um í Fiskeldissjóð. Við eigum nóg af verkefnum.
Bæjarráð og skipulags- og mannvirkjanefnd fóru yfir nýju teikninguna af Gamla gæsló og gerðu ekki athugasemdir við nýja staðsetningu á leiktækjunum.
Við Tinna upplýsingafulltrúi áttum fund með Viðari formanni hjólreiðadeildar Vestra þar sem við fórum yfir hugmyndir deildarinnar að merkingum fjallahjólareiðastíga. Það getur verið ruglingslegt að finna leiðirnar og eru merkingarnar og heimasíðan til að auðvelda fólki að finna hvar á að byrja.
Ég átti góðan fund með Steina og Tinnu hjá Bláma en þar vorum að velta upo hugmyndum að verkefnum í Orkusjóð.
Ásmundur Einar, mennta- og barnamálaráðherra, var með fund á Teams um svæðisbundna þjónustu og farsældarráð í málefnum barna þar sem markmiðið er að samþætta enn frekar þjónustuna og taka inn íþrótta- og tómstundastarf.
Dagur leikskólans var í vikunni. Starfsfólk og börn á Tanga buðu bæjarbúum upp á útikakó á Silfurtorgi í tilefni dagsins.
Við Bryndís bæjarritari tókum vinnudag á Suðureyri þar sem við heimsóttum nokkur fyrirtæki og íbúa, ásamt því að funda með Ólöfu Birnu formanni hverfisráðsins.
Ég sótti málþingið Af hverju orkuskipti, loftslags- og orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga. Málþingið var skipulagt af Vestfjarðastofu og er hluti af Evrópuverkefninu RECET þar sem lokaafurðin á að vera orkuskiptaáætlun fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum.
Bæjarfulltrúar og Aldrei fór ég suður gengið áttu undirbúningsfund um komandi hátíð en í ár er tuttugasta hátíðin og verður heilmikið havarí af því tilefni um páskana.
Sendiherra Frakkalands á Íslandi, Guillaume Bazard heimsótti mig en hann var hér vegna frönsku kvikmyndahátíðarinnar, auk þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir.
Við Högni Gunnar stjórnarformaður Þryms skrifuðum undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu hafnsækinnar starfsemi á Sundabakka, og með okkur var Jakob Ólafur nýr framkvæmdastjóri Þryms.
Siggasvell var opnað formlega um helgina. Frábært samfélagsverkefni orðið að veruleika og er í minningu Sigga Hafberg sem átti frumkvæðið en lést fyrir rúmu ári. Aðstaðan er orðin mjög flott. Skemmtilegur viðburður þar sem fjölmargir voru saman komnir til að skauta, borða kleinurnar hennar Tobbu og drekka kakó.