Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 19 og 20
Dagbók bæjarstjóra dagana 6.-20. maí 2024.
Það er búið að vera sitt lítið að hverju í gangi síðustu daganna. Það er búið að vera heilmikið í gangi á Torfnesvelli þar sem allt kapp er lagt á að gera vellina og aðstöðuna keppnishæfa. Fyrsti leikur í meistaraflokki kvenna fór fram á æfingavellinum um helgina, en það eru orðin mörg ár síðan við tefldum fram meistaraflokki kvenna. Mikil stemmning í herbúðum Vestra. Aðalvöllurinn er komin með lagningar og yfirlagið, og mér skilst að nú sé verið að bíða eftir næsta veðurglugga til að líma niður nýja gervigrasið. Allt að gerast.
Það er mikil framkvæmdarstemmning út um allt, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar. Það á líka við sveitarfélagið. Fundir bæjarráðs og bæjarstjórnar bera þess merki. Það er komin niðurstaða í þó nokkur útboð og má þar nefna rekstur á tjaldsvæðinu í Tungudal, slátt á opnum svæðum og framkvæmdum á Suðurtanga.
Aðalfundur íbúasamtakanna Átaks á Þingeyri var haldinn í vikunni í Blábankanum. Við Axel, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, vorum sérstakir gestir fundarins. Axel fór yfir fyrirhugaðar fráveituframkvæmdir og gatnagerð á Þingeyri sem fara fram í sumar en um er að ræða umfangsmikið og brýnt verkefni. Fundurinn var fjölmennur og líflegur.
Seinni umræða ársreiknings Ísafjarðarbæjar fór fram í vikunni og var hann samþykktur. Alltaf gott að klára það. Góður afgangur þó við hefðum viljað gera betur en utanaðkomandi þættir eins og viðbótarframlag til lífeyrissjóðsins Brúar og vextir og verðbólga höfðu neikvæð áhrif. Í svona umhverfi er áskorun að reka skuldsett sveitarfélag en allt er þó í rétta átt.
Fundur með hverfisráði Flateyrar. Ég átti góðan fund með Sunnu formanni hverfaráðs Önundarfjarðar og Hrönn verkefnisstjóra en þetta var síðasti fundur okkar Sunnu með Hrönn þar sem hún mun hætta um mánaðarmótin en verkefninu er að ljúka. Við Sunna munum halda áfram okkar mánaðarlegum fundum þar sem við förum yfir þau verkefni sem liggja á Önfirðingum.
Fyrir skömmu var ég tilnefnd í innviðahóp matvælaráðuneytisins fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga en hlutverk hópsins er að leggja til útfærslu á innviðaleið í formi tillögu að lagaákvæði eða ákvæðum í drögum að frumvarpi til laga um sjávarútveg. Í stuttu máli er hugmyndin að innviðaleið komi í stað almenns byggðakvóta. Við eigum að skila af okkur í júní svo þetta þarf að ganga hratt en álitamálin eru mörg.
Ársfundur Orkubúsins var haldinn í lok vikunnar. Þar var farið yfir það helsta og dreginn fram sá svakalegi kostnaður sem felst í því að þurfa að kaupa olíu til húshitunar á Vestfjörðum. Verst er að það er engin lausn í sjónmáli næstu árin. Það vantar línur og orkuframleiðslu. Á fundinum hélt Auður Agla, jarðfræðingur hjá ÍSOR, áhugavert erindi um jarðhitaleit á Vestfjörðum. Góðu fréttirnar eru þær að ekki er búið að gefast upp á að finna jarðhita í Tungudal og boranir hefjast aftur í vikunni! Nú á að bora 700 m djúpa vinnsluholu rétt fyrir ofan Bræðratungu, en þar eru væntingar um að vinna 40-50° heitt vatn. Þannig að öll nótt er ekki úti. Mér fannst jarðfræðingur nokkuð bjartsýnn að þetta myndi bera árangur en það gæti verið óskhyggja hjá mér.
Aðalfundir Hvetjanda og Byggðasafnsins voru haldnir í vikunni. Starfsemi þessara félaga er í föstum skorðum og engar nýjar fréttir þannig séð. Gestum Byggðasafnsins hefur fjölgað verulega á milli ára og safninu skilað með góðum afgangi árið 2023. Hvetjandi er líka í góðum höndum og leitar eftir góðum fjárfestingatækifærum á Vestfjörðum.
Náttúrustígur upp í Naustahvilft. Við höfum verið í viðræðum við Kjartan Bollason, lektor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur í náttúrustígagerð, við að aðstoða okkur við að gera náttúrustíg upp í Naustahvilft. Það er löng forsaga að þessu máli en það fékkst styrkur úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að gera stíg fyrir mörgum árum sem hefur ekki verið nýttur. Hugmyndin er að Kjartan leiðbeini áhugasömum og þeim sem vilja læra að gera náttúrustíga, og að Naustahvilft verði vettvangur námsins. Það er ekki sama hvernig svona stígar eru lagðir og þeir eru að mestu gerðir með handafli, þurfa að falla að landslaginu og svo framvegis. Vonandi fáum við gott fólk með okkur í þetta verkefni.
Í vikunni fór Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða af stað og límdi viðvörun á númerslausa bíla víða í Ísafjarðarbæ og vil ég hvetja eigendur þessara bíla að gera hreint fyrir sínum dyrum og hjálpa okkur við að halda bænum snyrtilegum.
Ég má á til með að hrósa listakonunni Mathilde Morant fyrir fallegt útilistaverk sem hún gerði á bak við Messíönuhús við Sundstræti á Ísafirði. Þetta kemur svo vel út. Verkið heitir Við sjávarsýn sem er viðeigandi við hús á bökkunum.