COVID-19: Pistill frá bæjarstjóra
Kæru íbúar Ísafjarðarbæjar,
Nú er vika 2 í samkomubanni á enda og hert viðmið tóku gildi í byrjun síðustu viku. Þetta eru sannarlega skrítnir tímar og ekki sjálfsagt eða sjálfgefið að allt skipulag bæjarfélagsins hreinlega virki við þessar fordæmalausu aðstæður í þjóðfélaginu. Það er sama hvert litið er í Ísafjarðarbæ, allir hafa lagst á eitt að láta hlutina ganga upp. Skólar, leikskólar, íþróttahús, sundlaugar, áhaldahús, hafnir, öldrunarþjónusta, félagsþjónusta, stjórnsýsla, fyrirtæki, verslanir og veitingahús og allir aðrir hafa lagst á eitt og látið starfsemina ganga upp og hjól samfélagsins halda áfram að snúast. Það er þó í mörgum eða flestum tilvikum með öðru sniði en við eigum að venjast.
Í skólum og leikskólum hefur ströngum fyrirmælum varðandi aðskilnað verið fylgt og að ekki sé blöndun milli hópa. Það er afar mikilvægt að skólar haldi því á lofti gagnvart nemendum og foreldrum að sama skipulag eigi við að skóladegi loknum. Annars virka þessar aðgerðir ekki nema að hluta. Sama á við varðandi verslun og þjónustu en þar er mikilvægt að tilmæli sóttvarnaryfirvalda séu virt.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru smit farin að greinast á svæðinu og reynir því enn meira á fumlaus og rétt viðbrögð við þær aðstæður.
Áfram höldum við með bjartsýnina að leiðarljósi og munum standa þennan storm af okkur saman. Nýjustu tíðindi um þann fjölda sem áætlað er að fái veiruna á Íslandi eru mun jákvæðari en þau voru í byrjun og verðum við að vona að við náum að vinna okkur í gegnum þetta á sem skemmstum tíma.
Nú er mánuður frá því ég tók við starfi bæjarstjóra og hafði í upphafi skipulagt heimsóknir í stofnanir og fyrirtæki í bæjarfélaginu. Þau plön verða hins vegar að bíða betri tíma af framangreindum ástæðum og vona ég að skilningur sé á því.
Vorið mun koma og sumarið líka og munum við taka því fagnandi og við munum að sjálfsögðu sigrast á þessum erfiðleikum saman.
Að lokum vil ég hvetja ykkur til að fylgjast með nýjustu upplýsingum hér á heimasíðunni og Facebook-síðu Ísafjarðarbæjar og á covid.is.
Áfram Ísafjarðarbær!
Kveðja,
Birgir Gunnarsson
Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar