Breytingar á verkferlum vegna notkunar framkvæmdafjár hverfisráða
Á 1117. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sem fram fór 17. ágúst sl., var samþykkt tillaga Bryndísar Óskar Jónsdóttur, bæjarritara um að breyta verkferlum í kringum notkun framkvæmdafjár hverfisráða sveitarfélagsins. Í minnisblaði bæjarritara sem lagt var fram á fundinum kemur fram að í sumar hafi bæjarritari og bæjarstjóri fundað með fulltrúum hluta hverfisráða Ísafjarðarbæjar og þar hafi komið fram óánægja vegna óskilvirkni þeirra framkvæmda sem hverfisráð hafa óskað eftir að framkvæmdafé yrði nýtt í. Meðal annars hafi gengið illa að koma verkefnum í framkvæmd og ónýtt framkvæmdafé ekki verið fært á milli ára í fjárhagsáætlun. Þá hefur verið erfitt að koma stærri verkefnum í framkvæmd án þess að sveitarfélagið setji þau á framkvæmdaáætlun og nýti til þess fé úr öðrum sjóðum.
Í minnisblaði bæjarritara er lagt til að bæjarstjóri, ásamt bæjarritara og sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, ákveði með hverju hverfisráði fyrir sig framkvæmd til næstu tveggja ára. Skal það gert þannig að hvert hverfisráð skili inn óskum um framkvæmdir og nokkuð vel útfærðar lausnir á verkefnum, s.s. val á tækjum eða munum, ef svo á við, í byrjun september 2020. Þegar ákvörðun um framkvæmd hefur verið tekin skal áætlun um framkvæmdina og hönnun unnin samhliða fjárhagsáætlanagerð, s.s með gerð framkvæmdaáætlunar til tveggja ára, og við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 verði fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun fyrir hvert hverfi, sem tekur mið af „eyrnamerktu“ framkvæmdafé, auk aukins fjár frá sveitarfélaginu, sé þess þörf.
Tillaga bæjarritara um skilvirkari verkferla er til næstu tveggja ára og skal staðan endurmetin haustið 2022.
Á næstu dögum verður kallað eftir hugmyndum og tillögum frá hverfisráðum í samræmi við breytta verkferla.