Nýir forstöðumenn í Safnahúsi
Myndir: Aðsendar.
Edda B. Kristmundsdóttir hefur tekið við stöðu forstöðumanns bókasafns Ísafjarðar og Guðfinna Hreiðarsdóttir hefur tekið við stöðu forstöðumanns héraðsskjala- og ljósmyndasafns. Söfnin eru rekin undir þaki Safnahússins á Eyrartúni á Ísafirði og heyrðu áður undir forstöðumann Safnahúss.
Áður gegndi Edda starfi bæjarbókavarðar við bókasafnið. Hún er með BA-próf og diploma í upplýsingafræði frá Háskóla Íslands. Guðfinna gegndi áður starfi skjalavarðar. Hún er með BA-próf í sagnfræði og MA-próf í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún lokið ýmsum námskeiðum tengdum skjalavörslu og varðveislu ljósmynda á vegum Þjóðskjalasafns Íslands, Landskerfis bókasafna og Þjóðminjasafns Íslands.
Bókasafn Ísafjarðarkaupstaðar var stofnað 13. júlí 1889 og var fyrst til húsa í barnaskólanum sem þá var við Silfurgötu 3. Næst var safnið flutt í skátaheimilið, síðar í Aðalstræti 18 og eftir það var safnið lengi á annarri hæð Sundhallar Ísafjarðar við Austurveg. Það var svo 2003 sem safnið flutti, ásamt fleiri söfnum bæjarins, í Safnahúsið.
Héraðsskjalasafnið var stofnað 8. maí 1952 og starfar samkvæmt lögum nr. 77 28. maí 2014 um opinber skjalasöfn. Markmið safnsins er að safna, varðveita og skrá opinber skjöl í umdæminu (að skjölum ríkisstofnana frátöldum), einnig skjöl félaga og einkaaðila eftir því sem kostur er. Ljósmyndasafnið starfaði sem deild í héraðsskjalasafninu frá 1970, en hefur verið sjálfstæð stofnun frá flutningi þess í Safnahúsið 2003 og starfar samkvæmt Samþykkt fyrir Ljósmyndasafnið Ísafirði frá 2003.
Eddu og Guðfinnu er óskað velfarnaðar í nýjum störfum.