Breytingar á skipulagi og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar
Starfshópur um skipulag og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar sem settur var á laggirnar í janúar á þessu ári lauk störfum fyrir stuttu og hefur bæjarstjórn nú samþykkt tillögur hópsins.
Hópnum var falið að greina og skoða skipulag og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar og leggja fram tillögur að breytingum á skipulagi leikskólastarfs sem leitt geta til framtíðarumbóta og stöðugleika í starfsumhverfi barna og starfsfólks leikskóla.
Niðurstaða greiningarvinnunnar sýndi að helstu áskoranir leikskólanna eru:
- Langur dvalartími barna
- Erfiðleikar við að manna leikskólana
- Viðvarandi álag á starfsfólk og börn
- Há veikindatíðni starfsfólks
- Erfiðleikar starfsfólks við að nýta lögbundna orlofsdaga sína
- Flutningur starfsfólks á milli skólastiga
Tillögur hópsins um úrbætur, sem samþykktar voru af bæjarstjórn, eru í stuttu máli að:
- Dvalargjald verði lægra fyrir þjónustutímabilið kl. 8-14 á daginn, en hærra tímagjald sé greitt fyrir tímabilið kl. 14-16 á daginn. Enn hærra þjónustugjald gildir fyrir kl. 7.45-8 og kl. 16-16.15.
- Sjá nánar í frétt um gjaldskrárbreytingar.
- Greitt verði sérstaklega fyrir skráningardaga, sem verða 6-10 á hverju ári. Foreldrar þurfa þá að skrá og greiða fyrir börn sín fyrir nýtta skráningardaga, en að almennt séu þeir ekki inni í þjónustugjaldi.
- Skráningadagar verða sérmerktir í skóladagatali: Einn til fjórir dagar í kringum jól og áramót, einn dagur þegar haustfrí eru í grunnskólum, tveir dagar þegar vetrarfrí eru í grunnskólum og þrír í kringum páska. Foreldrar þurfa að óska sérstaklega eftir skóladvöl þessa daga með þriggja vikna fyrirvara. Greitt er sérstaklega fyrir þessa daga og er gjaldið 2.700 kr. fyrir hvern skráningardag.
- Dvalartími 12-16 mánaða barna sé einungis til kl. 15.00 á daginn.
- Ljóst er að yngstu börnunum fylgir mesta álagið og er það reynsla starfsfólks leikskóla að langur skóladagur sé þeim íþyngjandi og hafi áhrif á taugaþroska barna.
- Fjölga leikskólarýmum í Skutulsfirði.
Hægt er að kynna sér tillögur starfsfhópsins í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.
Tillögur starfshóps um skipulag og starfsumhverfi leikskóla
Tengdar fréttir:
Starfshópur um skipulag og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar settur á fót
Breytingar á gjaldskrám skóla