Breytingar á samþykkt um öldungaráð
Bæjarstjórn samþykkti á 488. fundi sínum þann 20. janúar 2022 breytingar á samþykt um öldungaráð Ísafjarðarbæjar. Breytingarnar fela meðal annars í nýtt ákvæði í 1. mgr. 2. gr.:
Öldungaráð fer með verkefni samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Öldungaráðið fer einnig með verkefni samkvæmt 8. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
Er þetta sett inn til að ná fram nánari skýringu á verksviði og lagastoð nefndarinnar.
Þá er breyting á 3. gr. samþykktarinnar sem lýtur að hlutverki ráðsins. Þar er nú miðað við að ráðið sé vettvangur samráðs bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri, í stað 60 ára áður. Er það með vísan til laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, sem skipan öldungaráðsins byggir á.
Einnig voru gerðar breytingar á 4. gr. um skipan ráðsins en í fyrri samþykkt var gert ráð fyrir níu fulltrúum, en sex þeirra væru skipaðir af félagi eldri borgara í Ísafjarðarbæ, og einn þeirra frá félagi eldri borgara í Önundarfirði. Tveir tilnefndir frá bæjarstjórn.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 125/1999 skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs. Með vísan til þessa er ákvæði samþykktanna uppfært þannig að öldungaráðið verði skipað 7 fulltrúum og jafnmörgum til vara, á eftirfarandi hátt, auk þess sem félög eldri borgara í sveitarfélaginu skulu skipa sameiginlega sína fulltrúa. Er hér jafnframt horft til þess að breytingar geta orðið á fjölda og staðsetningu einstakra félaga, og ekki talið rétt að nafngreina einstök félög í samþykktunum.
- Þrír fulltrúar og þrír til vara tilnefndir af bæjarstjórn.
- Þrír fulltrúar og þrír til vara tilnefndir sameiginlega af félögum eldri borgara í Ísafjarðarbæ.
- Einn fulltrúi og einn til vara tilnefndur af heilsugæslunni.
Hægt er að kynna sér allar breytingar frá fyrri samþykkt í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 14. janúar 2022.