Breytingar á reglum um úthlutun lóða
Bæjarstjórn samþykkti breytingar reglum Ísafjarðarbæjar um úthlutun lóða á 494. fundi sínum sem fram fór þann 5. maí 2022.
Helstu breytingar eru að Ísafjarðarbær gerir lóðarleigusamninga við lóðarhafa fyrr í byggingarferlinu. Í eldri reglum voru lóðarleigusamningar gerðir við fokheldi bygginga en nú miðast gerð lóðarleigusamninga við steypta botnplötu. Breytingin gerir fjármögnun húsbyggjenda ódýrari þar sem lánastofnanir veita ekki veð nema lóðarleigusamningur liggi fyrir.
Þá er felld út heimild til að afturkalla lóðir ef byggingarnefndarteikningar liggi ekki fyrir innan sex mánaða frá lóðarúthlutun. Heimildin þótti matskennd þar sem óljóst var hvenær átti að beita henni og hvenær ekki. Þá eru sex mánuðir ekki langur tími til að fá hönnuði til að skila inn öllum uppdráttum, sér í lagi í stærri verkum. Eftir sem áður verða lóðir afturkallaðar séu framkvæmdir ekki hafnar innan 12 mánaða. Í nýjum reglum er skilgreint hvenær framkvæmdir við húsbyggingu teljast hafnar og miðast það við uppsteypta sökkla.
Einnig er búið að opna á úthlutun lóða á óskipulögðum svæðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.