Breytingar á gjaldskrám skóla: Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í haust og lægri leikskólagjöld

Bæjarstjórn hefur samþykkt breytingar á gjaldskrám leikskóla, grunnskóla og dægradvalar með gildistíma frá 1. ágúst 2024. Meðal annars verða skólamáltíðir í grunnskólum gjaldfrjálsar og hressing í dægradvöl, en einnig lækkar dvalargjald leikskóla og daggjald í dægradvöl.

Alþingi samþykkti um helgina frumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða upp á skólamáltíðir.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við nýgerða langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks.

Helstu breytingar á gjaldskrám, sem samþykktar voru af bæjarstjórn á fimmtudaginn síðastliðinn, eru raktar hér fyrir neðan.

Leikskólar

Ný gjaldskrá tekur gildi 1. ágúst 2024. Viðmiðunargjaldskráin skólaárið 2024-2025 hefur 204 vistunardaga og 8 skráningardaga. Rukkað er meðaltalsgjald á mánuði miðað við 11 mánuði. Skráningardagar á skólaárinu eru ekki inn í viðmiðunargjaldi vistunar.

Þjónusta 2023 2024 (til 31. júlí) 2024-2025
Leikskólagjald - tímagjald mánaðar fyrir vistun kl. 8-14  3.723 kr. 3.950 kr. 3.583 kr.
Leikskólagjald - tímagjald mánaðar fyrir vistun kl. 14-16  3.723 kr. 3.950 kr. 3.690 kr.
Leikskólagjald - tímagjald mánaðar utan kl. 8-16 tímabils  7.446 kr. 7.900 kr. 7.380 kr.
Álag vegna ítrekaðrar seinkunar 1.910 kr. 2.020 kr. 1.970 kr.
Hádegisverður, mánaðargjald 6.490 kr. 6.880 kr. 6.680 kr.
Morgunhressing, mánaðargjald  4.200 kr. 4.450 kr. 4.330 kr.
Síðdegishressing, mánaðargjald  4.200 kr. 4.450 kr. 4.330 kr.
Skráningardagur - nýtt     2.700 kr.

Sem fyrr geta foreldrar sem falla undir tekjuviðmið sótt um að fá 40% afslátt af almennu dvalargjaldi. Systkinaafsláttur er 40% með öðru barni og gjaldfrjálst er fyrr þriðja barn.

Sjá nánar í frétt um breytingar á skipulagi og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar.

Grunnskólar

Matarþjónusta nemenda í grunnskóla verði endurgjaldslaus veturinn 2024/2025. Ísafjarðarbær tryggir gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í gunnskóla sveitarfélagsins í samstarfi við ríkið og með fyrirliggjandi kostnaðarþátttöku þess.

  • Hádegisverður verður gjaldfrjáls.
  • Hafragrautur fyrir öll stig nemenda verður gjaldfrjáls.
  • Ekki verður boðið upp á ávexti eða mjólk.

Dægradvöl

  • Daggjald Dægradvalar taki ekki hækkunum veturinn 2024/2025 og verður áfram 900 kr.
  • Hressing í Dægradvöl verði gjaldfrjáls, í stað 150 kr. daggjalds. 

Tengdar fréttir
Starfshópur um skipulag og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar settur á fót
Breytingar á skipulagi og starfsumhverfi í leikskólum Ísafjarðarbæjar