Breytingar á bæjarmálasamþykkt
Þann 16. febrúar 2022 samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar breytingar á samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköpum bæjarstjórnar. Uppfærð samþykkt var birt í Stjórnartíðindum 25. mars og hefur þar með öðlast gildi.
Ástæða breytinganna eru breytingar á sveitarstjórnarlögum og breytingu á fyrirmynd um samþykkt um stjórn sveitarfélaga, leiðbeiningum um ritun fundargerða sveitarstjórnar og leiðbeiningar um fjarfundi sveitarstjórnar.
Aðalbreytingarnar eru:
- Þátttaka á fundum með rafrænum hætti: Að víkka heimild til að sitja nefndarfundi og fundi bæjarstjórnar með rafrænum hætti. Áður þurfti að vera ófærð eða veður sem hamlaði fundarsókn til að slíkt væri heimilt, og var þá jafnan öllum gert að sitja fundinn rafrænt. Nú hefur sveitarstjórnarlögum og þar með samþykkt sveitarfélagsins verið breytt þannig að heimilt er að sitja fundi með rafrænum hætti sé viðkomandi staddur í sveitarfélaginu eða í erindagjörðum innanlands á vegum þess. Einn getur því setið fund með fjarfundabúnaði, en aðrir fundamenn mæta í fundarsal.
- Gerðabækur: Felld er út skylda til notkun gerðabóka í þeim tilfellum þar sem nefndafundir eru ritaðir með rafrænum hætti.
- Ráðningar starfsmanna: Ákvæði um ráðningar starfsmanna eru gerð skýrari og felld út sú skylda að viðkomandi fagnefnd geri tillögu að ráðningum. Rökin fyrir því eru að fyrra fyrirkomulag er ekki talið samrýmast stjórnsýslulögum eða mannauðsstefnu sveitarfélagsins, auk þess sem tafir verða oft á ráðningum ef fagnefndir funda sjaldan. Skýrir verkferlar eru við ráðningar í æðstu stjórnunarstöður, svo og varðandi aðra stjórnendur, og kemur mannauðsstjóri og viðkomandi fagsviðsstjóri, eftir atvikum, að ferlinu og oft einnig sérstakt ráðningarfyrirtæki. Tilkynningaskylda er þó til fagnefndar um ráðningu eftir að ráðning hefur farið fram. Þá var ákvæði um ráðningar stjórnenda gert skýrara varðandi hvaða stöður bæjarstjórn skuli hafa aðkomu að og eru að nú eftirfarandi stöður: Sviðsstjórar, mannauðsstjóri, slökkviliðsstjóri og hafnarstjóri, en skv. skipuriti Ísafjarðarbæjar eru það þeir stjórnendur sem heyra beint undir bæjarstjóra.
Aðrar breytingar eru minniháttar og koma til vegna lagabreytinga og breytinga á leiðbeiningum ráðuneytisins, s.s. aukin verkefni sveitarstjórnar í samræmi við lagabreytingar, skerping skyldu þess að meginreglan sé sú að fundir bæjarstjórnar séu opnir en heimilt sé að einstakir starfsmenn sitji lokaða fundi, breyting á verkefnum bæjarstjórnar sem þurfa tvær umræður, nýtt ákvæði um kosningu nefndar fyrir hluta sveitarfélagsins, breyting á kosningu kjörstjórna í samræmi við ný kosningalög, og nýtt ákvæði um tilvísun til sveitarstjórnarlaga varðandi samráð við íbúa, þ.m.t. borgarafundi, íbúaþing og íbúakosningar.