Beata Joó er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar
Beata Joó var á laugardag útnefnd bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2018. Útnefningin fór fram á Act alone á Suðureyri, en það er atvinnu- og menningarmál Ísafjarðarbæjar sem útnefnir bæjarlistamann.
Í rökstuðningi nefndarinnar segir:
„Beata fluttist til Ísafjarðar 1986 til að gegna organistastöðu við Ísafjarðarkirkju í eitt ár en ílengdist og hefur búið þar síðan. Óhætt er að segja að Beata hefur auðgað menningarlíf Ísafjarðar verulega. Fljótlega eftir komu hennar hóf hún kennslu við Tónlistarskóla Ísafjarðar þar sem hún starfar enn. Beata stjórnaði Sunnukórnum til fjölda ára, einnig Karlakórnum Erni og Kvennakór Ísafjarðar, en hún mun á vetri komanda taka upp þráðinn með Karlakórnum og Kvennakórnum. Hún hefur einnig stjórnað og undirbúið Hátíðarkór Tónlistarskólans í stórum verkefnum s.s. Messias e. Händel, Requiem e. Mozart, Bach tónleikum sem flutt voru með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Gloriu e. Poulenc sem var flutt með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur farið í fjölmargar söngferðir með kórum sínum bæði innanlands og utan og ávallt við góðan orðstír.
Hún er feiknagóður kórstjóri enda hefur hún verið fengin til að kenna kórstjórn við Tónlistarskóla Ísafjarðar í samvinnu Tónskóla þjóðkirkjunnar/Listaháskóla Íslands. Hún hefur náð frábærum árangri með nemendur sína í Tónlistarskóla Ísafjarðar enda afskaplega samviskusamur og hugmyndaríkur kennari. Hún hefur ávallt lagt ómælda vinnu í kennslu sína til farsældar fyrir nemendur sína. Hún hvetur þá áfram í námi og hefur fylgt þeim í ótalmargar keppnir þar sem oftar en ekki þeir hafa komið heim með verðlaun og viðurkenningar og þar með aukið hróður Tónlistarskóla Ísafjarðar og um leið haldið á lofti nafni Ísafjarðarbæjar sem tónlistarbæjar. Skemmst er að minnast þegar Pétur Ernir Svavarsson nemandi hennar hlaut aðalverðlaun Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna 2018, í apríl síðastliðnum. Hún er sá kennari sem útskrifað hefur flesta nemendur úr framhaldsstigi og margir þeirra hafa haldið áfram tónlistarnámi sínu og eru tónlistarfólk og/eða kennarar í dag.
Auk alls framangreinds hefur hún verið tónlistarstjóri í stórum verkefnum Tónlistarskóla Ísafjarðar, eins og Söngvaseið sem var samstarfsverkefni tónlistarskólans og Litla Leikklúbbsins. Sýning var valin áhugamannasýning ársins 2003, en sýningar voru 24 á Ísafirði og 3 í Þjóðleikhúsinu. Einnig var hún tónlistarstjóri í Lion King sem sett var upp síðastliðinn vetur og var það samstarfsverkefni Leikfélags Menntaskóla Ísafjarðar og Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Þess ber að gera að Tónlistarskóli Ísafjarðar siglir inn í 70 ára afmælisvetur sinn og því ekki óviðeigandi að kennari við skólann hljóti útnefninguna í ár. Það er alveg ljóst að Beata hefur lagt mikið til menningarlífs Ísafjarðar þau 32 ár sem hún hefur búið hér. Við höfum verið einstaklega heppin að fá að njóta hæfileika hennar og krafta svo lengi.“