Bara við og stelpurnar fengu Virðisaukann
Aðstandendur gönguskíðaferðanna „Bara ég og stelpurnar“ fengu í gær Virðisaukann, frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar. Verðlaunin voru veitt við athöfn fyrir fund bæjarstjórnar í gær.
Í umsögn atvinnu- og menningarmálanefndar segir um verðlaunahafann: „Hólmfríður Vala Svavarsdóttir er eigandi og hótelstjóri á Hótel Ísafirði. Fyrir 4 árum síðan byrjaði hún að þróa helgarferðir til Ísafjarðar sem er nú vörumerkið „Bara ég og stelpurnar“.
Áður en verkefnið hófst má segja að helgarnar frá janúar fram í maí hafi verið algjörlega dauður tími í rekstri Hótelsins. Hólmfríður nýtti áhuga sinn og fagþekkingu í skíðagöngu og byrjaði að bjóða upp á skíðagöngunámskeið bara ætluð konum.
Fyrsta árið byrjaði þetta með einni helgi þar sem 20 konur voru skráðar til þátttöku. Konurnar heimsækja Ísafjörð frá fimmtudegi til sunnudags, gista á Hótel Ísafirði og njóta leiðsagnar heimamanna í skíðagöngu. Núna, 4 árum seinna hafa námskeiðin þróast og leggur Hólmfríður Vala áherslu á að þær konur sem koma á námskeið nýti sér þjónustu annarra fyrirtækja hér í bænum og fari í jóga, heimsæki Dokkuna, Ívaf, Sætt og Salt og fleiri fyrirtæki.“
Á meðfylgjandi mynd eru ásamt Hólmfríði Völu þeir Gunnar Bjarni Guðmundsson og Heimir Gestur Hansson.