Bæjarstjórn samþykkir óbreytt útsvar 2023

Bæjarstjórn samþykkti á 499. fundi sínum þann 6. október 2022 tillögu Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, um að útsvar Ísafjarðarbæjar 2023 verði óbreytt eða 14,52%. 

Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52% en lægst 12,44%.

Í máli Örnu á fundinum kom fram að útsvarið er eins hátt og leyfilegt er þar sem Ísafjarðarbæ veiti ekki af tekjunum í ljósi þeirrar stöðu sem rekstur sveitarfélagsins er í.

„Í bæjarráði hafa mismunandi sviðsmyndir varðandi aðra álagningu sveitarfélagsins, s.s. fasteignaskatta og -gjöld ársins 2023, einnig verið rædd en á fundi með ráðgjafafyrirtækinu KPMG kom skýrt fram að sveitarfélagið þarf á öllum þeim tekjum að halda sem hægt er að ná í,“ segir Arna.

Nánar verður farið yfir mögulega tekjuöflun Ísafjarðarbæjar á vinnufundi bæjarstjórnar með KPMG sem haldinn verður mánudaginn 10. október. Þá verður ný þjóðhagspá og nýjar forsendur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga einnig kynntar í næstu viku, sem munu nýtast í frekari útfærslum álagninga sveitarfélagsins.