Ávarp formanns bæjarráðs við vígslu keppnisvallar á Torfnesi

Jörundur Áki Sveinsson, starfandi framkvæmdastjóri KSÍ, Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs, Svavar Þ…
Jörundur Áki Sveinsson, starfandi framkvæmdastjóri KSÍ, Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs, Svavar Þór Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Vestra, og Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.
Mynd: Vestri

Keppnisvöllurinn á Torfnesi var vígður eftir miklar endurbætur laugardaginn 22. júní og af því tilefni ávarpaði Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, gesti og leikmenn. Ávarpið er birt hér í heild sinni.


Kæru vinir, heiðursgestir,
til hamingju með daginn.

Fyrsti völlurinn sem hér var leikið á var vígður 18. júlí 1964, eða fyrir sextíu árum síðan. Hér var þá vík með ruslahaugum á uppfyllingu. Hlaðinn var grjótgarður með sjónum og uppfyllingarefni dælt úr Pollinum. Malarlag var svo borið á og valtað og völlurinn tilbúinn.

Vandamálið var helst að boltinn vildi fara út í sjó, en þá var auðvitað engin Skutulsfjarðarbraut. Því var sett upp girðing sjávarmegin til að fanga svona flesta boltana allavega, en stundum fengu boltarnir vængi í hita leiksins og þá svömluðu þeir um Pollinn stundum margir í senn.

Frá vígslu Torfnesvallar 1964. Úr Knattspyrnusögu Ísfirðinga eftir Sigurð Pétursson, bls. 168.

Í bókinni Knattspyrnusaga Ísfirðinga eftir Sigurð Pétursson er rakin saga sigra og sorga inni á vellinum, en einnig saga aðstöðuleysis. Bæjaryfirvöld höfðu flest hver skilning á stöðunni, en auðvitað voru fleiri þjóðþrifamál sem kölluðu á þessa sömu peninga á miklum uppbyggingartímum á öllum sviðum þjóðlífs.

Á 17. júní 1977 (og aftur að minnsta kosti einu sinni, árið 1981) var til dæmis efnt til knattspyrnuleiks milli bæjarstjórnarinnar og starfsmanna bæjarins annarsvegar og forystumanna knattspyrnuhreyfingarinnar hinsvegar. Þótti leikurinn hin besta skemmtun. Árið eftir voru bæjarstjórnarkosningar og úrbætur á íþróttavellinum ofarlega á stefnuskránni. Ég get sagt að ég er feginn að slíkur leikur hafi ekki verið haldinn síðan ég hóf þátttöku í bæjarpólitík, því ég hef aldrei almennilega skilið rangstöðureglunar.

Úr Vestfirska fréttablaðinu 1981.

En þess var ekki langt að bíða að gras var lagt á völlinn á Torfnesi, þó það hafi að sjálfsögðu verið að miklu leyti unnið í sjálfboðavinnu. Samhliða var gerður völlur á Skeiði, á svæði nálægt Bónusi sem kríur hafa sölsað undir sig síðan. Árið 1982 var vallarhúsið svo reist, og þá var loksins hægt að skipta um föt og fara í sturtu.
Annar völlur var svo gerður nokkru síðar, mér á vinstri hönd, sem ég man eftir sem malarvelli þegar ég var að alast upp, en hann var lagður gervigrasi árið 2003. Stúkan sem þið sitjið í kom svo tíu árum síðar.

Næsta skref átti svo alltaf að vera knattspyrnuhús, sem rísa skyldi hér á svæðinu. Saga þeirrar hugmyndar er löng en skemmst er frá því að segja að í kringum sveitarstjórnarkosningar 2022 hafði Í-listinn efasemdir um að bæjarfélagið hefði bolmagn til að ráðast í svo stóra framkvæmd, sem ekki hefði heldur leyst þann vanda að aðalkeppnisvöllurinn hefur aldrei verið með neitt sérlega gróskumikið gras. Því ákvað bæjarstjórnin að setja 200 milljónir, dreift á tvö ár, í lagfæringar á aðalvellinum, og með kænsku og aðkomu einkaaðila og sjálfboðaliða var hægt að láta þann pening duga einnig fyrir nýju gervigrasi á æfingavöllinn, auk ýmissa þarfra úrbóta hér á svæðinu.

Þetta hafði allt verið ákveðið þegar Vestra tókst á ævintýralegan hátt að komast upp í bestu deildina. Þá var ljóst að flýta þurfti framkvæmdum eins og hægt væri. Um allt þetta var þverpólitísk sátt.

En þá gripu veðurguðirnir í taumana. Ég sem skíðamaður var svosem ánægður með það, en mikil hríðarveður og kuldar frestuðu framkvæmdum um að minnsta kosti fimm vikur frá áætlun sem vissulega var talsvert bjartsýn.

Kerecisvöllurinn nokkrum dögum fyrir vígslu. Mynd: Ásgeir Hólm

En þetta hafðist allt, þar með talið að leggja hitalagnir undir völlinn sem er nú farið að hljóma sem betri hugmynd en hún var fyrir þremur vikum síðan, áður en heita vatnið fannst í Tungudal.

Síðustu daga og vikur hefur nótt verið lögð við dag við að koma þessu öllu heim og saman. Netin komu með DHL hraðsendingu, vallarleyfið er komið á síðustu klukkutímunum samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Tinnu Hrund, stjórnarmanni í KSÍ. Svo er búið að mála stúkuna.

Og nú er þetta orðinn að nýjum heimavelli þriggja liða, Vestra karla og kvenna, og Harðar. Eftir að hafa leikið heimaleikina að heiman, getur Vestri nú leikið heimaleikina heima.

Þegar maður er skoðar söguna, og þegar maður hefur fylgst með þessu stórátaki sem hér hefur orðið, sér maður eitt þema sem gengur í gegnum allt: sjálfboðaliðar fá hlutina til að gerast. Bæjarfélagið þarf að sjálfsögðu að koma myndarlega að, en getur ekki og á ekki að gera allt sjálft. Síðustu mánuðir, vikur og dagar hafa því verið annasamir hjá aðstandendum fótboltans hér á Ísafirði.

Mig langar því til að fá Svavar Þór Guðmundsson, formann knattspyrnudeildar Vestra, til að koma og taka við blómvendi. Hann hefur auðvitað verið duglegur, en hann sem formaður er fulltrúi og táknmynd sjálfboðaliðans og velunnara Vestra og íþróttahreyfingarinnar allrar.

Af því að mér er tíðrætt um söguna, þá er gott að sögukennarinn komi hingað. Þetta er ný blaðsíða í sögu íþróttaiðkunar á Ísafirði og Vestfjörðum. Til hamingju, og áfram Vestri.