Auglýsing um verndarsvæði í byggð á Ísafirði

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, þann 15. ágúst 2022, í sumarleyfi bæjarstjórnar, var samþykkt að auglýsa tillögu verndarsvæðis í byggð, skv. 4. mgr. 5.gr. laga nr. 87/2015.

Svæðið sem lagt er til að verði gert að verndarsvæði í byggð er á Skutulsfjarðareyri í þéttbýli Ísafjarðar. Afmörkun þess nær annars vegar til innri hluta byggðarinnar á Eyrinni og hinsvegar til svæðisins sem umkringir Neðstakaupstað á Suðurtanga. Afmörkun verndarsvæðisins miðast við lóðarmörk. Svæðinu má einnig skipta gróflega í þrennt eftir gömlu verslunarstöðunum sem þau tengjast; Neðstakaupstað, Miðkaupstað og Hæstakaupstað.

Ísafjörður er einn af elstu kaupstöðum landsins og þar hafa varðveist samstæðar heildir bygginga sem eru með þeim elstu á landinu öllu. Svipmót gömlu byggðarinnar á Eyrinni hefur jafnframt ómetanlegt sögulegt gildi sem vitnisburður um mótandi strauma í þéttbýlismyndun á Íslandi.

Varðveislugildi byggðarinnar er metið hátt út frá gildi byggingarlistar, menningarsögu, umhverfis, uppruna og ástands.

Mikilvægt er að vernda sérstöðu gömlu byggðarinnar á Eyrinni þannig að úr henni megi áfram lesa sögu þéttbýlismyndunar Ísafjarðar. Einnig skiptir máli að áfram verði hægt að njóta þess fallega umhverfis sem hún skapar og vinna með söguna á skapandi hátt til umhverfismótunar. Á sama tíma þarf að tryggja að byggðin haldi áfram að vera lifandi íbúarbyggð með fjölbreyttri starfsemi þar sem verndun og uppbygging fer saman.

Tillagan ásamt greinargerð liggur frammi á bæjarskrifstofum Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu, Hafnarstræti 1, til og með föstudagsins 7. október 2022. Hana má einnig skoða með því að smella á hlekkinn neðst á þessari síðu.

Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eða þeim sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri er bent á að senda skriflegar athugasemdir til skipulagsfulltrúa á netfangið skipulag@isafjordur.is fyrir þann tíma.

Tillaga, greinargerð og uppdrættir um verndarsvæði í byggð