Átak um að fanga villiketti
Frá 18.-25. júní verður farið í átak um að fanga villiketti í Ísafjarðarbæ. Búr verða sett út eftir miðnætti þá daga sem átakið stendur yfir en samkvæmt samþykkt um kattahald í Ísafjarðarbæ er eigendum katta skylt að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu á flækingi utan dyra frá kl. 24.00 að nóttu til kl. 07.00 að morgni.
Ómerktir kettir sem fangaðir verða í átakinu verða auglýstir hér á vef Ísafjarðarbæjar og hafa mögulegir eigendur sjö daga til að sækja dýrið. Hafi ómerktur köttur verið handsamaður, er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu, örmerkingu, greiðslu eftirlitsgjalds og áfallins kostnaðar. Kostnaður við handsömun, örmerkingu, fóðrun, geymslu, auglýsingu eða aflífun kattar skal að fullu greiddur af eiganda.
Merktum köttum verður sleppt en séu þeir ógeldir högnar verður eigendum gefinn tveggja vikna frestur til að láta gelda köttinn, en í fyrrnefndri samþykkt kemur fram að gelda skal alla fressketti þegar þeir hafa náð 6 mánaða aldri, nema þeir séu notaðir til ræktunar.