Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2023 samþykktur
Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 hefur nú verið kynntur og samþykktur eftir síðari umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 16. maí. Afkoma Ísafjarðarbæjar árið 2023 er jákvæð og skilar afgangi sem nemur 119 milljónum króna en reksturinn var neikvæður um 109,6 milljónir króna árið 2022.
Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra er rekstur Ísafjarðarbæjar að styrkjast þrátt fyrir áskoranir í rekstri sveitarfélaga. „Þar vegur þyngst há verðbólga og vextir, auk þess sem viðbótarframlag til lífeyrissjóðsins Brúar hafði neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna.“
Arna segir mörg jákvæð teikn vera á lofti í rekstri Ísafjarðarbæjar. „Skuldahlutfallið er að lækka, það var 138,8% árið 2022 en er 133,5% árið 2023. Skuldahlutfallið hjá A-hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Skuldaviðmið A- og B-hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A-hluta. Veltufé frá rekstri er að aukast sem um munar á milli ára sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og öðrum skuldbindingum. Handbært fé hækkaði um 305 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2023 kr. 563 m.kr.“
Fjárfest var fyrir rúmar 743 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2023. „Umsvifamestu fjárfestingarnar voru tveir nýir gervigrasvellir á Torfnesi sem munu umbylta allri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í sveitarfélaginu,“ segir Arna. „Mest var þó framkvæmt á höfninni en það sér fyrir endann á framkvæmdum á Sundabakka. Talsvert miklu var fjárfest í fráveitu og vatnsveitu.“
Rekstur sveitarfélagsins verður áfram krefjandi en ársreikningur ársins 2023 er þó til marks um að vel hafi tekist þrátt fyrir óhagstætt efnahagsumhverfi. Ljóst er að sú vegferð sem hófst í upphafi þessa kjörtímabils með sameiginlegum markmiðum bæjarstjórnar í fjármálum Ísafjarðarbæjar er að skila árangri.
Með ársreikningi var lögð fram ársskýrsla sem er nýmæli en henni er ætlað að veita enn betri innsýn í rekstur og starfsemi sveitarfélagsins.
Ísafjarðarbær birtir ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess, ásamt samstæðureikningi fyrir sveitarfélagið, eftir að þeir hafa verið samþykktir af bæjarstjórn. Ársreikningur samstæðu Ísafjarðarbæjar, stofnana og sjóða hans er unninn af starfsfólki bæjarskrifstofu og endurskoðaður lögum samkvæmt af löggiltum endurskoðendum.
Ársreikningurinn sýnir rekstrarreikning, efnahagsreikning og sjóðsstreymi ásamt sundurliðunum og skýringum.
Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2023
Samantekt um niðurstöðu ársreiknings 2023
Tekjur
Rekstrartekjur námu 7.349 m.kr. og voru 23 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Af því eru skatttekjur 104 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Skatttekjur námu samtals 5.025 m.kr. Aðrar tekjur eru 127 m.kr lægri en áætlun gerði ráð fyrir.
Laun
Laun og launatengd gjöld voru 3.562 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 3.533 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2023 var 428. Rekstrargjöld voru 29 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir.
Rekstur
Ársreikningurinn sýnir rekstrarafgang upp á 119 m.kr. fyrir samantekinn rekstrarreikning A- og B-hluta. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarafgang upp á 273 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A- og B-hluta er því 154 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Vegur þar þyngst viðbótarframlag til A deildar Brúar lífeyrissjóðs upp á 110 m.kr. en í október 2023 tók stjórn Brúar ákvörðun um að innheimta launagreiðendur um 10% af greiddum lífeyri vegna þess að tryggingaleg staða A deildar Brúar var neikvæð.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 61 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 34 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A-hluta er því 95 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Þar vegur jafnframt þyngst viðbótarframlag til A deildar Brúar lífeyrissjóðs upp á 110 m.kr.
Eigið fé, skuldir og fjárfestingar
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 1.640 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta en eigið fé A-hluta var 564 m.kr. Eiginfjárhlutfall A og B hluta var 14,3% en var 12,2% árið áður.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum, eða skuldahlutfall A og B hluta er 133,5% en var 138,8% árið 2022. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Skuldaviðmið A og B hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A hluta.
Fjárfest var fyrir rúmar 743 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2023 en áætlaðar fjárfestingar voru 814,4 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að fasteignum og öðrum mannvirkjum Eignasjóðs (um 257 m.kr.), hafnarframkvæmdum (um 347 m.kr.) og fráveituframkvæmdum (um 68 m.kr.). Á árinu 2023 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 500 m.kr. Handbært fé hækkaði um 305 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2023 kr. 563 m.kr.