Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2022 samþykktur

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2022 var samþykktur eftir síðari umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 1. júní.

Ísafjarðarbær birtir ársreikn­ing fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess, ásamt samstæðureikningi fyrir sveitarfélagið, eftir að þeir hafa verið samþykktir af bæjar­stjórn. Ársreikningur samstæðu Ísafjarðarbæjar, stofnana og sjóða hans er unninn af starfsfólki bæjarskrifstofu og endurskoðaður lögum samkvæmt af löggiltum endurskoðendum.

Ársreikningurinn sýnir rekstrarreikning, efnahagsreikning og sjóðsstreymi ásamt sundurliðunum og skýringum.

Ársreikningur 2022

Sundurliðun ársreiknings 2022

Samantekt um niðurstöðu ársreiknings

Tekjur

Rekstrartekjur námu 6.835 m.kr. og voru 605 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Af því eru 583 m.kr. vegna hlutdeildar tekna í samstarfsverkefnum vegna innleiðingar reglugerðabreytinga á árinu og ekki var áætlað fyrir. Skatttekjur námu samtals ríflega 4.488 m.kr.

Laun

Laun og launatengd gjöld voru 3.315 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 3.330 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2022 var 415. Rekstrargjöld voru 469 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Af því eru 578 m.kr. vegna samstarfsverkefna sem ekki var áætlað fyrir.

Rekstur

Ársreikningurinn sýnir rekstrarhalla upp á 109,6 m.kr. fyrir samantekinn rekstrarreikning A- og B-hluta. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarhalla upp á 150 m.kr. Mikil verðbólga með tilheyrandi hækkun fjármagnskostnaðar leiddi af sér helstu frávik í rekstri miðað við fjárhagsáætlun ársins en fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru 78 m.kr. hærri í kostnaði. Þá voru framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða 121 m.kr. ef frá er horft áhrif vegna samstarfsverkefna. Rekstrarniðurstaðan A- og B-hluta er því 40 m.kr. jákvæðari en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 210 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrarhalla upp á 377 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A-hluta er því 167 m.kr. jákvæðari en áætlun gerði ráð fyrir.

Eigið fé, skuldir og fjárfestingar

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 1.297 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta en eigið fé A-hluta var jákvætt um 362 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 12,1% en var 11,5% árið áður.

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum, eða skuldahlutfall A og B hluta er 138% en var 146,8% árið 2021. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121% en var 129% árið 2021. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Skuldaviðmið A og B hluta er 89,8% og 80,7% fyrir A hluta.

Fjárfest var fyrir rúmar 304 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2022 en áætlaðar fjárfestingar voru 440 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að fasteignum og öðrum mannvirkjum Eignasjóðs (um 67 m.kr.), hafnarframkvæmdum (um 134 m.kr.) og fráveituframkvæmdum (um 44 m.kr.). Á árinu 2022 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 216 m.kr. Handbært fé hækkaði um 30,3 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2022 kr. 324 m.kr.