Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2021

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2021 var samþykktur í síðari umræðu bæjarstjórnar þann 5. maí síðastliðinn.

Rekstrartekjur námu 5.737 m.kr. og voru 7,5 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Álagningarhlutfall útsvars var 14,52%, sem er lögbundið hámark þess. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,56% en í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall. Í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,65%, sem einnig er lögbundið hámark með álagi. Íbúafjöldi í Ísafjarðarbæ var 3.841 þann fyrsta janúar 2021 og námu skatttekjur samtals ríflega 3.770 m.kr.

Ársreikningurinn sýnir rekstrarhalla upp á 396 m.kr. fyrir samantekinn rekstrarreikning A- og B-hluta. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarafkomu upp á 120 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 568 m.kr.

Rekstrargjöld voru 374 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru 121,5 m.kr. hærri í kostnaði. Rekstrarniðurstaðan er því 516 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Má rekja það að mestu til tveggja liða; annars vegar breytingar á lífeyris- og orlofsskuldbindingu sem var 335 m.kr. hærri en áætlað var og síðan vegna lægri söluhagnaðar en áætlað var en hann er 104 m.kr. undir áætlun.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2021 nam 1.158 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta en eigið fé A-hluta var jákvætt um 332 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 11,6% af heildarfjármagni en var 14,7% árið áður.

Laun og launatengd gjöld voru 3.006 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 2.987 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2021 var 379.

Fjárfestingar

Fjárfest var fyrir rúmar 268 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2021 en áætlaðar fjárfestingar voru 374 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að gatnarframkvæmdum (um 127,3 m.kr.) og hafnarframkvæmdum (um 120,4 m.kr.).

Ársreikningur 2021