Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2019

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var samþykktur í síðari umræðu bæjarstjórnar þann 4. júní síðastliðinn. Rekstrarafgangur Ísafjarðarbæjar nam 238 millj. kr. árið 2019 en gert hafði verið ráð fyrir 83 millj. kr. afgangi í fjárhagsáætlun. Niðurstaðan er því 155,5 millj. kr. jákvæðari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir var 649 millj. kr. samanborið við 489 millj. kr. árið áður en áætlunin 2019 hafði gert ráð fyrir 551 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs var jákvæð um 13,7 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir halla upp á 97 millj. kr.

Tekjur sveitarfélagsins námu 5.324 millj. kr. en gert hafði verið ráð fyrir 5.315 millj. kr. Laun og launatengd gjöld voru alls 2.644 millj. kr. sem er um 35,3 millj. kr. undir því sem áætlað var. Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2019 var 458 en launþegar á árinu voru í allt 703.

Heildar skuldir og skuldbindingar í ársreikningi 2019 voru 7,8 milljarðar króna og þar af eru vaxtaberandi skuldir 5,6 milljarðar króna. Skuldahlutfall sveitarfélagsins var 147% í árslok 2019 og lækkar úr 152,3% frá árslokum 2018. Skuldaviðmiðið var 86,88% í árslok samkvæmt reglum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 100,05% árið áður.

Veltufé frá rekstri var 727 millj. kr. en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 554 millj. kr. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Veltufjárhlutfallið var 1,52 í árslok 2019 en var 0,88 árið áður. Bókfært eigið fé nam 1.870 millj. kr. í árslok en var 1.488 millj. kr. í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfallið var 19,28% af heildarfjármagni en var 16,56% árið áður.

Íbúar Ísafjarðarbæjar þann 1. janúar 2020 voru 3.809 og fjölgaði þeim um 9 frá fyrra ári eða um 0,2%. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 943 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 1.193 þús. kr. á hvern íbúa.

Fjárfestingar

Fjárfest var fyrir 197 millj. kr. á árinu 2019 en áætlaðar fjárfestingar voru 420 millj. kr. Helsta skýring frávika frá áætlun er sú að inni í fjárfestingum er ekki 283 millj. kr. fjárfesting á árinu vegna Sindragötu 4a þar sem áætlað er að selja allar íbúðirnar á árinu 2020 og þær því flokkaðar meðal veltufjármuna. Fjárfestingar sveitarsjóðs námu 210 millj. kr. og fjárfestingar B-hluta stofnana voru neikvæðar um 13,7 millj. kr. þar sem Fasteignir Ísafjarðarbæjar seldi 3 íbúðir á árinu.

Mikil umsvif voru við skólamannvirki á árinu og nam fjárfesting vegna þeirra 166,8 millj. kr. og er vegna viðbyggingar við leikskólann Eyrarskjól ásamt bættri starfsmanna- og eldhúsaðstöðu. Fyrsta áfanga var lokið í febrúar 2020 þar sem viðbyggingin var afhent fullkláruð og er í framhaldinu verið er að taka í gegn hina tvo kjarnana. Afhending á verkinu er áætluð um miðjan júní 2020 og verður í framhaldinu lóðin endurgerð. Þessi framkvæmd mun leiða til þess að leikskólinn geti aukið við sig um 14 leikskólapláss.

Tækjakaup eignasjóðs námu um 37,3 millj.kr. og er um að ræða nýjan slökkvibíl sem afhendur var á Flateyri.

Fjárfesting í íþróttamannvirkjum nam um 20 millj.kr. Keyptur var heitur pottur á Þingeyri fyrir 1,1 millj.kr., hönnunarvinna vegna skipulags útivistasvæða í Tungudal og Seljalandsdal nam 12,7 millj. kr., framkvæmdir á Vallarhúsi námu 1,5 millj.kr. og útboðsvinna vegna Knatthús á torfnesi nam 4,3 m.kr.

Farið var í gatnagerð og stíga fyrir 11,1 millj. kr. á árinu. Framkvæmdum var að mestu lokið við göngustíg ofan við bæinn á Suðureyri fyrir 6,4 millj. kr. og gerður var nýr göngustígur í Hnífsdal á vegum Hverfisráðsins og var varið 4 millj. kr. í það verk á árinu.

Ársreikninginn má nálgast með því að smella hér.