Ályktun bæjarstjórnar um starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga

Á 487. fundi bæjarstjórnar sem fram fór fimmtudaginn 6. janúar óskaði forseti bæjarstjórnar eftir að taka málið Ályktun um starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga - 2022010033 inn á dagskrá fundarins með afbrigðum. Etirfarandi tillaga að sameiginlegri ályktun bæjarstjórnar var lögð fram og samþykkt:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur á það mikla áherslu að starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði tryggð áfram í Ísafjarðarbæ.

Í ljósi þess að nú er í skoðun tilfærsla á starfsemi Innheimtustofunnar sveitarfélaga frá sveitarfélögum til ríkisins er rétt að undirstrika mikilvægi þess að starfsemin verði áfram í sveitarfélaginu. Hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga starfa 8 manns á Ísafirði og hefur það verulega þýðingu fyrir samfélagið.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við yfirfærslu verkefna Innheimtustofnunar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til ríkisins en bendir á að þar geta sóknarfæri skapast til fjölgunar starfa og fleiri verkefna með því að samþætta starfsemina við aðra starfsemi opinberra stofnanna á vegum ríkisins.“

Ályktunin hefur verið send til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.