Alþjóðlegi salernisdagurinn er á mánudag
Mánudagurinn 19. nóvember er alþjóðlegur salernisdagur Sameinuðu þjóðanna og er þemað í ár: „Þegar náttúran kallar þá þurfum við klósett“. Það er því ekki úr vegi að nota klósettferðir dagsins til íhugunar um ástand og heilsu fráveitukerfisins. Tökum frá mínútu eða svo og hugsum til þeirra fjölmargra manna og kvenna sem á degi hverjum sjá til þess að skolpið renni óhindrað á áfangastað og minnumst þeirra sem þurfa að losa stíflur sem vel hefði verið hægt að koma í veg fyrir með því einu að sturta ekki niður bleyjum, smokkum, tannþráði, túrtöppum, eyrnapinnum, blautþurrkum, eldhúsbréfum eða trefjaklútum. Hugsun til náttúrunnar sem að óþörfu er látin brjóta niður ýmis konar spilliefni úr klóakinu sem hægt hefði verið að farga án endurgjalds á móttökustöðvum. Hugsum svo síðast en ekki síst um það hversu heppin við erum að hafa aðgang að salerni.
Nokkrir punktar til íhugunar:
- Um það bil 60% íbúa heimsins hafa annað hvort ekkert eða óboðlegt salerni á heimilum sínum
- Um það bil 860 milljónir þurfa að ganga örna sinna á víðavangi
- Um það bil 1.800 milljónir þurfa að nota drykkjarvatn sem óvarið er gegn saurmengun
- Þriðjungur skóla heimsins veitir nemendum sínum ekki aðgang að salernisaðstöðu
- 900 milljónir skólabarna hafa ekki aðstöðu til handþvottar
- Um það bil 80% af skólpi heimsins rennur ómeðhöndlað út í vistkerfið.
Hugsum áður en við sturtum niður.
Gleðilegan salernisdag