Alþjóðlegi klósettdagurinn: Hvað má fara í klósettið?
19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn og þá er upplagt að minna fólk á hvað má fara í klósettið.
Við eigum öll okkar þátt í mengun í vatni og sjó og því er það í okkar höndum að draga úr henni. Það á aðeins þrennt að fara í klósettið: Piss, kúkur og klósettpappír. Klósettið er enginn staður fyrir eyrnapinna, bómullarhnoðra, blautklúta, smokka og annað rusl. Þessir hlutir eiga að enda í ruslatunnunni.
Fyrir utan að valda skaða á umhverfinu og rekstri fráveitukerfa, verða sveitarfélög fyrir miklum kostnaði þegar hreinsa þarf dælur og farga úrgangi sem berst í fráveitukerfin.
Verkefnið „bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið“ er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Samorku í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu og er markmið þess að draga úr rusli í fráveitu og þar með álagi á umhverfið okkar.