Algengar spurningar um flokkun sorps
Umhverfisþjónustan Terra hélt fjóra íbúafundi í Ísafjarðarbæ í síðustu viku þar sem markmiðið var að kynna flokkunarfyrirkomulag og svara spurningum um sorphirðu og söfnun endurvinnsluefna. Í kjölfar fundanna hefur Terra nú tekið saman og svarað algengustu spurningum um sorpflokkun frá íbúum. Þær eru eftirfarandi (teknar af vef Terra):
Endurvinnslutunnan – hvað fer í hólfið og hvað fer í tunnuna sjálfa?
Endurvinnslutunnan er með hólfi ofan í sem flokkað er í sérstaklega. Í hólfið fara málmumbúðir s.s. skolaðar niðursuðudósir og lok af glerkrukkum. Einnig fer allt umbúðaplast í hólfið s.s. brúsar, plastfilma, plastdósir, plastpokar, frauðplast, plast utan af áleggi og plastöskjur. Í tunnuna sjálfa fer svo allur pappi og pappír. Þetta getur til dæmis verið bylgjupappi, fernur, dagblöð, tímarit og aðrar umbúðir úr pappa.
Frágangur endurvinnsluefna
Margir vildu vita hvernig ætti að ganga frá endurvinnsluefnunum. Mikilvægt er að fjarlægja alla matvöru úr umbúðunum og skola eins og hægt er. Efnið má allt fara laust í tunnuna, en til að koma í veg fyrir fok á plasti úr innra hólfinu þá er hægt að nýta aðra poka sem falla til. Best er að pokarnir séu glærir, sé verið að nota poka.
Lífrænn úrgangur
Allur lífrænn úrgangur flokkast í hólfið sem er í almennu sorptunnunni. Dæmi um slíkan úrgang eru matarafgangar, kaffi filter pokar, tepokar, trétannstönglar, munnþurrkur. Það er áríðandi að allur lífræni úrgangurinn fari í sérstaka poka, úr maís/kartöflusterkju og bundið sé fyrir áður en þeir eru settir í hólfið í tunnunni sem ætlað er fyrir lífræna úrganginn eða í sérstakar tunnur. Þessir pokar eru umhverfisvænir og brotna niður í jarðgerðarferlinu ásamt innihaldinu. Hvert heimili fær allt að 150 poka á ári sem eingöngu á að nota undir lífrænan úrgang. Lítil handhæg karfa fyrir pokana fylgir til að nota við söfnunina í eldhúsinu. Plastpoka má alls ekki nota!
Hvað er gert við gler?
Komið hefur verið upp söfnunarstöðvum fyrir gler sem ekki ber skilagjald. Þar má nefna krukkur og matar-, olíu- og edikflöskur svo eitthvað sé nefnt. Söfnunarstöðvum hefur verið komið upp á eftirtöldum stöðum:
- Landsbankaplanið á Ísafirði við hlið pappírsgáms
- Við Bónus á Skeiði
- Við hafnarvog á Suðureyri
- Við sundlaug á Flateyri
- Við sundlaug á Þingeyri
- Við flöskumóttökur (t.d. Vesturafl á Ísafirði)
Ílát skulu vera tóm og lok af þeim eiga að fara í viðeigandi endurvinnslu (málmur eða plast). Mikilvægt er að glerið fari laust í gáminn, ekki í pokum. Til að koma í veg fyrir óþarfa fnyk er góð hugmynd að skola úr glerílátunum áður en þeim er safnað.
Tvískiptur bíll
Við fengum spurningar á öllum stöðunum um að sami bíllinn komi og losi úr almennu tunnunni og lífræna hólfinu. Þetta er rétt, nema bíllinn er tvískiptur og getur því losað tvo flokka af efnum í sömu ferð. Hann losar því í sömu ferð lífræna hólfið og almennu tunnuna og svo þegar söfnun á endurvinnsluefnum fer fram þá losar hann bæði úr hólfinu og tunnunni í sömu ferð. Þannig sparast ferðir sem annars þyrfti að keyra og sækja sérstaklega.
Hvað á að gera við rafhlöður?
Rafhlöður eru spilliefni sem ættu aldrei að berast með almennu sorpi í urðun. Við bendum einnig á að rafhlöður mega ekki fara í endurvinnslutunnuna heldur ættu þær að berast í sérstakar rafhlöðutunnur. Slíka tunnu má meðal annars finna á bensínstöðvum, í Bónus og á móttökustöðum okkar.