Alberta Gullveig er nýr tengiráðgjafi vegna Gott að eldast
Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir hefur verið ráðin tengiráðgjafi í þróunarverkefninu Gott að eldast sem er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur, sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, vinna saman að þróunarverkefninu sem styrkt er af stjórnvöldum sem gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk.
Tengiráðgjafi starfar fyrir sveitarfélögin að verkefnum sem stuðla að virkni og vellíðan eldra fólks til að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun.
Alberta Gullveig lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2010. Hún lauk B.A. námi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands 2016 og MLM í forystu og stjórnum frá Háskólanum á Bifröst árið 2019. Einnig lauk hún viðbótardiplómu á framhaldsstigi í öldrunarþjónustu frá Háskóla Íslands 2024.
Alberta Gullveig hefur starfað innan velferðarþjónustu Ísafjarðarbæjar frá 2017 í fjölbreyttum verkefnum sem verkefnastjóri, ráðgjafi og deildarstjóri félagsþjónustu. Einnig hefur hún verið rekstrarstjóri tjaldsvæðisins í Tungudal á árunum 2014-2021. Þar áður hafði hún meðal annars starfað að félags- og tómstundamálum barna og stýrt Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar.
Við bjóðum Albertu hjartanlega velkomna til starfa!
Tengdar fréttir:
Gott að eldast: Ísafjarðarbær valinn til að taka þátt í þróunarverkefni