Álagningarkerfi fasteignagjalda endurskoðað

Þjóðskrá Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi sammælst um að ráðast í verkefni um endurgerð álagningarkerfis fasteignagjalda. Samhliða því verður unnið að tillögum sem upphaflega komu frá nefnd um tekjustofna sveitarfélaga árið 2005 um mánaðarlega álagningu fasteignaskatta. Markmið breytinganna er að auka jafnræði í skattlagningu og að tekjuauki skapist hjá sveitarfélögum.

Verkefnið skiptist í fimm þætti sem sjá má á myndinni hér til hliðar.

Skipulag verkefnisins er með þeim hætti að stýrihópur er skipaður fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrá, tveimur sveitarfélögum og verkefnisstjóra. Greiningarhópur hefur hafið störf og þar eru fulltrúar fjögurra sveitarfélaga, fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, forritarar frá Þjóðskrá og utanaðkomandi forritarar auk verkefnisstjóra.

Miðað er við að nýtt álagningarkerfi verði tekið í notkun í ársbyrjun 2023.

Við þetta má bæta að frekari breytinga er að vænta hvað varðar álagningarseðla fasteignagjalda hjá Ísafjarðarbæ strax á næsta ári en þá verða álagningarseðlarnir sendir út alla mánuði ársins en ekki bara fyrstu 10 mánuðina.