Afsláttur fasteignagjalda fyrir elli- og örorkulífeyrisþega

Ísafjarðarbær vill vekja athygli á reglum um afslátt af fasteignagjöldum fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.  Elli- og örorkulífeyrisþegum er veittur afsláttur af fasteignaskatti og holræsagjaldi vegna íbúða þeirra til eigin nota. Afslátturinn er að hámarki 97.500,- og er tekjutengdur. Við álagningu fasteignagjalda ár hvert er afsláttur unninn á sjálfvirkan hátt í gegnum vinnslu álagningakerfis og eru forsendur sóttar í gegnum vefþjónustu RSK og byggist á tekjum þar síðasta árs.

Hægt er að óska eftir að Velferðarsvið taki til athugunar hvort veittur afsláttur sé réttur eða hvort réttur sé til staðar, hafi hann ekki verið veittur við álagningu fasteignagjalda. Elli- og örorkulífeyrisþegar geta einnig sótt um lækkun fasteignaskatts við fráfall maka og fellur þá niður fasteignaskattur og holræsagjald að fullu fyrsta árið, þó að hámarki kr. 97.500,-. Umsóknir skulu berast til Velferðasviðs Ísafjarðarbæjar, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði. Umsóknarfrestur er t.o.m. fimmtudagsins 28. febrúar 2019.

Bent er á reglur Ísafjarðarbæjar um afslátt af fasteignagjöldum fyrir elli- og örorkulífeyrisþega og umsóknareyðublað sem fylla þarf út og skila með umsókn ásamt umbeðnum gögnum.