Aðgerðaráætlun með menningarstefnu samþykkt
Aðgerðaáætlun með Menningarstefnu Ísafjarðarbæjar var samþykkt á 502. fundi bæjarstjórnar sem fram fór þann 17. nóvember.
Í aðgerðaáætluninni er lagt til að gert verði ráð fyrir fjármunum vegna aðgerða á fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2023-2028, en nánari fjárhæð og skilgreining verkefna kemur fram í aðgerðaáætluninni sjálfri.
Meðal aðgerða sem samþykktar voru og gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2023 eru:
- Setja upp rafræna íbúahandbók – sérstaka vefsíðu um menningu, íþróttastarf, tómstundir, viðburði o.fl. sem stendur íbúum til boða í sveitarfélaginu.
- Styrkur á móti fasteignagjöldum vegna menningarstarfsemi Edinborgarhúss
- Sérstakt fjármagn til menningarstofnana fyrir viðburði og til sýningahalds
- Menningardagskrá og rými til sköpunar í félagsmiðstöðvum
- Endurvekja Virðisaukann, hvatningarverðlaun fyrir frumkvöðla
- Kaupa færanlegar flokkunarruslatunnur sem nýta má við menningarviðburði
- Setja upp söguskilti á Eyrinni
- Efla samstarf menningarstofnana og öldrunarfulltrúa Ísafjarðarbæjar
- Vinna að þríhliða samningi Edinborgarhúss, Ísafjarðarbæjar og ríkisins
- Áframhaldandi endurbætur á Safnahúsi (kjallari og loftræsting)
- Bæta rafmagn í Jónsgarði fyrir viðburðahald og jólaseríur
- Bæta rafmagn á Silfurtorgi fyrir viðburðahald, matarvagna o.fl.
Menningarstefna Ísafjarðarbæjar 2022-2032 var samþykkt á 493. fundi bæjarstjórnar þann 7. apríl 2022. Með tillögu menningarmálanefndar um samþykkt stefnunnar var óskað eftir því að aðgerðaáætlun yrði samþykkt og myndi fylgja stefnunni.
Vinna við aðgerðaáætlun hófst haustið 2022, en menningarfulltrúi Vestfjarðastofu Skúli Gautason, stýrði þeirri vinnu, eins og vinnu við stefnuna.