Ábendingavefur vegna endurskoðunar aðalskipulags

Skipulagið tekur til alls lands Ísafjarðarbæjar sem skiptist í tvö landfræðilega aðskilin svæði norð…
Skipulagið tekur til alls lands Ísafjarðarbæjar sem skiptist í tvö landfræðilega aðskilin svæði norðan og sunnan Ísafjarðardjúps.

Vinna við endurskoðun Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008-2020 stendur yfir og hægt er að senda inn hugmyndir á ábendingavef fyrir íbúa og hagsmunaaðila til 31. desember 2021, sem verða nýttar inn í endurskoðað aðalskipulag sem gilda mun til ársins 2032. 

Á ábendingavefnum er hægt að setja inn hugmyndir í þremur flokkum; náttúra, innviðir og samfélag. Fjölmargir undirflokkar heyra svo þar undir.

Náttúra

Undir yfirflokknum „Náttúra“ er hægt að setja inn athugasemdir og hugmyndir er varða staðhætti, náttúruvá, lífríki, landslag, vatn, loft, hljóð og óbyggð svæði, svo sem friðlýst svæði, skógrækt, stefnu um verndun gegn náttúruvám, landnotkun á óbyggðum svæðum og nýtingu og verndun annarra auðlinda.

Innviðir

Undir yfirflokknum „Innviðir“ má setja hugmyndir og athugasemdir er varða m.a. sorpmál, vatnsveitur, hitaveitur, fráveitur, rafveitur og samgöngur. Undir samgöngur falla m.a. göngu-, hjóla- og reiðstígar, vegir, gatnakerfi, almenningssamgöngur, hafnir og flugvellir.

Samfélag

Undir „Samfélag“ má setja inn athugasemdir og hugmyndir er varða byggð í þéttbýli og dreifbýli, atvinnu, nýsköpun, félags- og velferðarmál, fræðslumál, útivist, opin svæði og tómstundir.

Senda inn hugmynd


Þar sem um er að ræða endurskoðun á stefnu í gildandi aðalskipulagi er gagnlegt að kynna sér innihald þess og tilheyrandi viðauka áður en sendar eru inn tillögur.

Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020

Spurt og svarað

Hvað er aðalskipulag?

Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar.

Aðalskipulag stýrir því hvar og hvernig við búum og störfum og á þann hátt myndar það umgjörð fyrir daglegt líf. Það stýrir einnig hvernig okkur miðar í áttað sjálfbærri nýtingu lands og sveigjanlegu og öruggu umhverfi fyrir íbúa og atvinnulíf. 

(Skipulagsstofnun, 2015

Hvað þýðir endurskoðun aðalskipulags?

Endurskoðun aðalskipulags felur í sér að stefna og ákvæði gildandi aðalskipulags eru skoðuð heildstætt með tilliti til þess hvort forsendur hafa breyst:

Hafa efnahagslegar og samfélagslegar forsendur breyst?
Hefur framfylgd aðalskipulagsins gengið eftir eins og að var stefnt?
Eru nýjar áskoranir eða verkefni sem þarf að bregðast við?

(Skipulagsstofnun, 2015

Hver er tilgangur endurskoðunar?

Frá því að gildandi aðalskipulag var staðfest hafa ný skipulagslög 123/2010 verið samþykkt og gefin verið út ný skipulagsreglugerð nr. 90/2013 á grunni laganna. Í endurskoðuðu aðalskipulagi verða nokkrar breytingar m.t.t. framsetningar og efnistaka frá því sem sett var fram í gildandi Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008‐2020. Jafnframt fellur aðalskipulagsgerð undir umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Ennfremur hefur Landsskipulagsstefna 2015‐2026 verið staðfest.

Tilgangur endurskoðunar er að aðalskipulagið gefi sem gleggsta mynd af stöðu Ísafjarðarbæjar og stefnu bæjarstjórnar í skipulagsmálum með víðtæku samráði við almenning og með öðrum hagsmunaðilum til framtíðar í sátt við

  • Samfélag
  • Náttúru og landslag
  • Atvinnuþróun og þjónustu
  • Félags‐ og velferðarmál
  • Menningu
  • Útivist 

Geta allir sent inn hugmyndir?

Já, allir íbúar og aðrir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í sveitarfélaginu geta sent inn hugmyndir og athugasemdir. Það er raunar afar mikilvægt að heyra frá sem flestum við endurskoðun aðalskipulags þar sem stefna þess hefur áhrif á alla sem búa og starfa í sveitarfélaginu.