454. fundi bæjarstjórnar frestað
454. fundi bæjarstjórnarfundi Ísafjarðarbæjar sem halda átti fimmtudaginn 19. mars hefur verið frestað í samráði við alla bæjarfulltrúa. Áætlað er að næsti fundur bæjarstjórnar verði haldinn 2. apríl. Í viðbragðsáætlun Ísafjarðarbæjar er kveðið á um að þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi almannavarna skuli leitað leiða við að halda nefndarfundi með fjarfundabúnaði.
Unnið er að frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem bæta á inn í lögin ákvæði þess efnis að ráðherra geti ákveðið að sveitarstjórn sé heimilt að víkja frá tilteknum ákvæðum laganna til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Er þar m.a. sérstaklega horft til þess að rýmka möguleikann á fjarfundum.
Núverandi heimildir til að halda fjarfundi eru takmarkaðar við miklar fjarlægðir eða erfiðar samgöngur. Því er ekki lögmætt að halda fjarfundi í öðrum tilfellum fyrr en lagabreyting hefur átt sér stað og ráðherra heimilað undanþágu.