142 tonnum af lífrænum úrgangi safnað 2019
Alls var 142 tonnum af lífrænum úrgangi safnað úr heimilistunnum í Ísafjarðarbæ árið 2019. Samanlagt magn sorps úr heimilistunnum var alls 657 tonn en fyrir utan lífræna úrganginn voru 386 tonn almennt heimilissorp og 129 tonn endurvinnsluefni.
Til samanburðar var sorpmagnið úr heimilistunnum árið 2018 alls 682 tonn sem skiptist í 552 tonn almennt heimilissorp, 108 tonn endurvinnsluefni og 22 tonn af lífrænum úrgangi en söfnun á lífrænum úrgangi hófst í nóvember 2018.
Til lífræns úrgangs flokkast t.d. matarafgangar, kaffifilter, tepokar, trétannstönglar og munnþurrkur. Alls ekki má henda plasti eða gleri með lífrænum úrgangi. Allur lífræni úrgangurinn á að fara í sérstaka poka úr maís/kartöflusterkju sem eru umhverfisvænir og brotna niður í jarðgerðarferlinu ásamt innihaldinu. Hvert heimili fær allt að 150 poka á ári sem eingöngu á að nota undir lífrænan úrgang. Poka fyrir má nálgast í móttöku bæjarskrifstofu, Stjórnsýsluhúsinu, og í Funa. Einnig er hægt að fá poka í sundlaugunum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.