Bæjarráð - 731. fundur - 29. desember 2011

Þetta var gert:

1.         Fundargerðir nefnda.

            Fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf., 20/12.  74. fundur.

            Fundargerðin er í sjö liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

            Fræðslunefnd 21/12.  316. fundur.

            Fundargerðin er í fjórum liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

2.         Minnisblað bæjarritara. - Dráttarbrautin að Suðurtanga 8, Ísafirði. 2010-06-0074.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 22. desember sl., er varðar væntanlega sölu dráttarbrautarinnar að Suðurtanga 8, Ísafirði og feril þess máls í stjórnsýslunni.  Minnisblaðinu fylgja drög að kaupsamningi, drög að grunnleigusamningi og lóðablaði.

            Bæjarráð samþykkir að veita væntanlegum kaupanda frest til komandi áramóta til að ganga frá kaupum eignarinnar.    

 

3.         Ársskýrsla Bæjar- og héraðsbókasafns, Héraðsskjalasafns og Ljósmyndasafns árið 2010.  2010-03-0043.

            Lögð fram ársskýrsla Bæjar- og héraðsbókasafns, Héraðsskjalasafns og Ljósmyndasafns Ísafjarðarbæjar fyrir starfsárið 2010.  Skýrslan er unnin af Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanni safnanna.

            Bæjarráð þakkar fyrir ársskýrsluna. Lögð fram til kynningar í bæjarráði.

 

4.         Bréf Landmælinga Íslands. - Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. 2010-02-0072.

            Lagt fram bréf frá Landmælingum Íslands dagsett 14. desember sl., er varðar innleiðingu á nýjum lögum nr. 44/2011 um ,,Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar“. Með bréfinu er verið að benda á mikilvægi þess, að þeir sem lögin um grunngerð ná til, séru upplýstir um hlutverk sitt.

            Bæjarráð vísar erindinu til umhverfis- og eignasviðs og umhverfisnefndar.

           

5.         Bréf Bolungarvíkurkaupstaðar. - Tilnefning í fagráð safna.  2010-07-0067.

            Lagt fram bréf frá Bolungarvíkurkaupstað dagsett 21. desember sl., þar sem tilkynnt er tilnefning Bolungarvíkurkaupstaðar í fagráð safna.  Sólrún Geirsdóttir er tilnefnd sem aðalmaður og Guðmundur Óli Kristinsson, sem varamaður.

            Lagt fram til kynningar.

6.         Bréf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. - Byggðakvóti 2011/2012. 2011-10-0008.

            Lagt fram bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti dagsett 21. desember sl., þar sem tilkynnt er niðurstaða ráðuneytisins, um úthlutun byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar fiskveiðiárið 2011/2012, með tilvísun til umsóknar sveitarfélagsins.  Úthlutun er sem hér segir skipt niður á byggðalög.

 

                        Þingeyri           85 þorskígildistonn.

                        Flateyri          300 þorskígildistonn.

                        Suðureyri         60 þorskígildistonn.

                        Hnífsdalur       19 þorskígildistonn.

                        Ísafjörður        66 þorskígildistonn.

 

            Vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið, að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðalaga, skal hún skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 20. janúar 2012.  Tillögur sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.

 

Bæjarráð var sammála um eftirfarandi bókanir.

            Samkvæmt bréfi sjávarútvegs- og landbúnarráðuneytisins dags. 21. desember sl., er bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gefinn kostur á að setja sérstök skilyði fyrir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012 í einstökum byggðalögum. Af þessu tilefni samþykkir bæjarráð Ísafjarðarbæjar að gefa fiskvinnslum og útgerðarmönnum í bænum tækifæri á, að koma með ábendingar og/eða athugasemdir vegna fyrirhugaðrar setningar úthlutunarreglna bæjarins. Ábendingar og/eða athugasemdir skulu vera settar fram í hnitmiðuðum texta og örstuttri greinargerð.

            Bæjarráð bendir á að almennar úthlutunarreglur sjávarútvegsráðuneytisins setja ramma utan um þær reglur sem setja þarf og bæjarstjórn verður að taka mið af. Bæjarráð getur ekki tekið tillit til ábendinga og eða athugasemda, sem reglur ráðuneytisins ná ekki til. Bréf ráðuneytisins og reglur er unnt að fá sent í rafpósti eða á skrifstofu bæjarins, hjá upplýsingafulltrúa.  Skilafrestur verði til kl. 15:00 þann 11. janúar 2012.

 

            Bæjarráð  Ísafjarðarbæjar fagnar því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur farið fram á það við Hafrannsóknarstofnun, að hún fari nú þegar yfir ráðgjöf sína varðandi aflamark í ýsu fyrir núverandi fiskveiðiár.

            Er farið fram á þetta meðal annars vegna þess, að sjómenn hafa bent á, að mun meira af ýsu er að hafa á veiðislóðum smábáta á grunnslóð en mælingar Hafró benda til. Vonandi er hér kominn fyrsti vísir af því að tekið verði mark á fiskifræði sjómannsins.

            Rétt er að taka fram að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða bæði hvað varðar hagkvæmi veiða, stöðu markaða og aukningu á aflaverðmæti, sem gæti numið milljörðum króna.

 

7.         Minnisblað bæjarritara. - Kauptilboð í áhaldahús Ísafjarðarbæjar á Þingeyri.  2011-12-0005.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 27. desember sl., um innkomin kauptilboð í áhaldahús Ísafjarðarbæjar á Þingeyri. 

            Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við hæstbjóðanda.  Kaupsamningur verði lagður fyrir bæjarráð til samþykktar.

 

8.         Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Útboð á rekstri tjaldsvæðis í Tungudal, Skutulsfirði.  2011-12-0006.

            Lagt fram bréf frá Jóhanni B. Helgasyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 23. desember sl.  Bréfið fjallar um útboð á rekstri tjaldsvæðis Ísafjarðarbæjar í Tungudal, Skutulsfirði.  Bréfinu fylgja drög að útboðsgögnum.

            Bæjarráð samþykkir að heimila sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að auglýsa tilboð í rekstur tjaldsvæðis í Tungudal, Skutulsfirði.

 

9.         Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 792. stjórnarfundar.

            Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 792. fundi, er haldinn var þann 16. desember sl. í Allsherjarbúð, Borgartúni 30, Reykjavík.

            Lagt fram til kynningar.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 9:00.  

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Albertína Elíasdóttir.                                                             

Kristján Andri Guðjónsson.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?