Áhugaverðir staðir

Ísafjarðarbær er paradís útivistarfólks og skiptir þá litlu í hvaða byggðarkjarna eða sveit fólk kemur sér fyrir. Óvíða ef nokkurs staðar er jafn stutt að fara úr iðandi mannlífi yfir í ósnortna náttúru og möguleikar til útivistar eru óteljandi, hvort sem er að sumri eða vetri.

Mikil uppbygging stíga hefur átt sér stað í sveitarfélaginu á undanförnum árum sem auðveldar útivist fyrir alla aldurshópa. 

Náttúruperlur

Náttúruperlur innan marka Ísafjarðarbæjar eru of margar til að telja upp svo vel sé, en helst má nefna friðland Hornstranda og fossinn Dynjanda, sem nú er hægt að heimsækja með auðveldum hætti allt árið um kring, eftir tilkomu Dýrafjarðarganga.

Gaman er að heimsækja sandfjöruna í Holti í Önundarfirði allt árið um kring og auðvitað eru fleiri fjörur sem gaman er að kíkja í til að finna skeljar, skoða þang og fleyta kerlingum.  

Ganga á Kaldbak í Dýrafirði, hæsta fjall Vestfjarða, er auðveldari en margur ætlar, þar sem hægt er að keyra eftir jeppavegi að Kvennaskarði, sem skilur að Arnarfjörð og Dýrafjörð. Þaðan tekur gangan upp og aftur niður um fjórar klukkustundir.

Ekki þarf þó að fara í langar fjallgöngur til að njóta stórkostlegs útsýnis, til dæmis tekur stutta stund að tölta upp í Naustahvilft í Skutulsfirði og enn skemmri tíma að fara upp á varnargarðana ofan Flateyrar og Ísafjarðar.

Skrúðgarðar

Skrúðgarðar eru tiltölulega margir í sveitarfélaginu miðað önnur svæði á landinu. Á meðal þeirra er Austurvöllur og Jónsgarður á Ísafirði og Simsonsgarður í Tungudal. Þá er Skrúður í Dýrafirði einn elsti skrúðgarður landsins, opnaður þann 7. ágúst 1909. Garðurinn er góð innsýn í sögu grasafræðinnar á Íslandi og þá einkum og sér í lagi vegna fjölda tegunda og staðsetningar nánast norður á hjara veraldar.

Skógar

Í Tungudal í botni Skutulsfjarðar er Tunguskógur sem er tilvalinn útivistar- og áningarstaður. Í Tunguskógi eru góðir göngustígar, falleg rjóður og þar má finna gnægt berja og sveppa þegar sumri tekur að halla. Þar er lítill lystigarður, Simsongarður, og auðvitað Bunárfoss. Í skóginum er einnig golfvöllur, tjaldsvæði og strandblakvellir.

Í botni Dýrafjarðar er fallegur lítill skógur Skógræktarfélags Dýrafjarðar. Vegurinn að skóginum er heldur torfær síðasta spölinn en vel ferðarinnar virði, auk þess sem fótfráir ættu að geta gengið þennan kafla.

Önnur skógræktarsvæði í nágrenni við þettbýli eru m.a.:

  • Stórurð neðan Gleiðarhjalla og Kubbinn (Skógræktarfélag Ísafjarðar)
  • Við Klofning í Önundarfirði (Skógræktarfélag Önundarfjarðar)
  • Ofan byggðar á Suðureyri
  • Sandar og Garðshlíð í Dýrafirði (Skógræktarfélag Dýrafjarðar)

Einnig hefur verið skógrækt í smærri sniðum, á vegum skógræktarfélaga og einstaklinga, m.a. á Dröngum í Dýrafirði, í Haukadal, á Læk í Dýrafirði, á Gerðhömrum, á Núpi, í Alviðru, á Ketilseyri, í Keldudal, á Auðkúlu, á Hrafnseyri, á Kirkjubóli í Kirkjubólsdal og á Sæbóli.

Fjörur

Fjölmargar skemmtilegar fjörur eru í Ísafjarðarbæ og þær er gaman að heimsækja allan ársins hring. Hafa ber í huga að sýna lífríki í fjörum virðingu í umgengni og auðvitað að gæta sín sérstaklega á varptíma. Fjaran í Engidal í Skutulfirði er á náttúruminjaskrá og hverfisvernduðu svæði. Fjaran á Suðurtanga á Ísafirði er merkileg fyrir þær sakir að hún er upprunaleg fjara og varðveitt sem slík. 

Gönguleiðir

Hægt er að skoða gönguleiðir í sveitarfélaginu undir Útivist á kortasjá ÍsafjarðarbæjarListinn er ekki tæmandi en í stöðugri uppbyggingu.

Gamlar þjóðleiðir milli fjarða eru vinsælar gönguleiðir, svo sem leiðin yfir Klofningsheiði milli Suðureyrar og Flateyrar, yfir Breiðadalsheiði milli Ísafjarðar og Flateyrar eða Ísafjarðar og Suðureyrar, í gegnum Þjófaskörð milli Ísafjarðar og Hnífsdals og Heiðarskarð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Hjólaleiðir

MTB Ísafjörður hefur kortlagt fjallahjólaleiðir á norðanverðum Vestfjörðum og eru þær aðgengilegar á vef félagsins.


Vilji fólk fræðast nánar um helstu útivistarmöguleika eru þeir listaðir á westfjords.is, þar sem einnig má finna helstu upplýsingar fyrir ferðamenn.

Markaðsstofa Vestfjarða gefur út kort af Vestfjörðum. Þar má finna mikið af upplýsingum um Vestfirði og áhugaverða staði til að heimasækja. Nýjustu útgáfu má finna á Issuu aðgangi Markaðsstofunnar.