Neðstikaupstaður

Þegar fyrstu einokunarkaupmennirnir komu til Skutulsfjarðareyrar 1602 reistu þeir sér hús fyrir verslunina þar sem nú er Neðstikaupstaður. Varla hefur þótt ástæða til að byggja vandlega yfir kaupmennina þar sem þeir komu að vori og fóru aftur til Danmerkur að hausti. Um aldamótin 1900 mun á annan tug húsa hafa staðið í Neðstakaupstað. Nú eru í Neðstakaupstað fjögur hús frá 18. öld, Krambúðin byggð um 1760, Faktorshúsið byggt 1765, Tjöruhúsið byggt 1781 og Turnhúsið byggt 1784.

Árið 1883 eignaðist Ásgeir Ásgeirsson verslunina og á næstu árum varð Neðstikaupstaður vettvangur umfangsmesta verslunarfyrirtækis í einkaeigu á Íslandi. Ásgeirsverslun var rekin allt til ársins 1918, að Hinar sameinuðu íslensku verslanir tóku við. Sú verslun lifði einungis í átta ár og árið 1926 lauk verslun í Neðstakaupstað. Árið 1974 voru húsin friðuð og nú er Byggðasafn Vestfjarða með starfsemi í Turnhúsi og Neðstikaupstaður opinbert safnasvæði.

 

Myndir: Ljósmyndasafnið Ísafirði
Texti: Jóna Símonía Bjarnadóttir